Oscar Piastri, ökuþór McLaren, verður á ráspól í sprettkeppni helgarinnar í Sao Paulo kappakstrinum sem fer fram í Brasilíu þessa helgina.
Piastri var 0.029 sekúndum á undan liðsfélaga sínum hjá McLaren, Lando Norris, sem þýðir að það verður appelsínugul fremsta ráslína í sprettkeppninni í dag.
Charles Leclerc hjá Ferrari varð þriðji og heimsmeistarinn Max Verstappen fjórði.
Baráttan um heimsmeistaratitilinn er hörð en Max Verstappen er efstur með 362, 47 stigum á undan Norris sem er næstur með 315 stig. Þá er Charles Leclerc ennþá inni í myndinni með 291 stig í þriðja sæti.
Sprettkeppnin fer fram í dag sem og tímatökur fyrir kappakstur morgundagsins.