Verstappen heimsmeistari fjórða árið í röð

Max Verstappen fagnar fjórða heimsmeistaratitli sínum í röð.
Max Verstappen fagnar fjórða heimsmeistaratitli sínum í röð. Ljósmynd/Formula 1

Max Verstappen, ökuþór hjá Red Bull Racing, tryggði sér í morgun heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1 kappakstrinum þegar hann endaði í fimmta sæti í Las Vegas kappakstrinum.

Það dugði til því það eina sem Verstappen þurfti að gera var að enda fyrir ofan keppinaut sinn Lando Norris sem endaði í sjötta sæti.

Þegar tvær keppnir eru eftir af tímabilinu er Verstappen með 63 stiga forystu á Norris þegar aðeins er hægt að fá 60 stig til viðbótar og er því Verstappen heimsmeistari.

Hann kemst í fámennan hóp þeirra sem hafa orðið heimsmeistarar fjórum sinnum eða oftar en þar voru fyrir Alain Prost, Sebastian Vettel, Juan Manuel Fangio, Michael Schumacher og Lewis Hamilton.

Russell vann Las Vegas kappaksturinn

George Russell, Mercedes, vann kappaksturinn í morgun en honum tókst að halda aftur af liðsfélaga sínum Lewis Hamilton sem endaði í öðru sæti.

Ferrari ökuþórarnir Carlos Sainz og Charles Leclerc komu næsti í þriðja og fjórða sæti á undan Verstappen og Norris.

Þó að spennan í keppni ökuþóra er búin þá er mikil spenna í keppni bílasmiða. Þar er McLaren á toppnum með 608 stig, 24 stigum fyrir ofan Ferrari sem kemur í öðru sæti með 584 stig. Red Bull Racing er í þriðja sætinu með 555 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert