KR-ingar tryggðu sér í dag bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu er þeir sigruðu Skagamenn í úrslitaleik á Laugardalsvelli með þremur mörkum gegn einu. Leikur liðanna var fremur bragðdaufur framan af mörkin fjögur litu dagsins ljós á síðustu þrjátíu mínútum leiksins. Fyrst skoruðu þeir Þórhallur Hinriksson og Einar Þór Daníelsson fyrir KR, síðan minnkaði Stefán Þór Þórðarson muninn fyrir ÍA en Skagamaðurinn fyrrverandi Bjarki Gunnlaugsson innsiglaði sigur KR.
Leikur liðanna á Laugardalsvelli í dag var fremur bragðdaufur lengst af og fátt um marktækifæri. Skagamenn fengu þó tvö bestu færi leiksins áður en KR-ingar brutu ísinn. Í fyrri hálfleik komst Hálfdán Gíslason einn inn fyrir vörn KR en Kristján Finnbogason varði í horn. Í upphafi síðari hálfleiks skallaði Alexander Högnason síðan framhjá marki KR úr opnu marktækifæri. En á 61. mínútu átti David Winnie þrumuskot að marki ÍA sem Ólafur Þór Gunnarsson varði í slá, boltinn barst út í vítateiginn og Þórhallur Hinriksson fylgdi vel á eftir og skoraði. Aðeins fjórum mínútum síðar bættu KR-ingar við öðru marki en Einar Þór Daníelsson skoraði af stuttu færi eftir að Ólafur Þór Gunnarsson hafði misst frá sér fyrirgjöf frá vinstri kanti. Þrátt fyrir mótlætið lögðu Skagamenn ekki árar í bát heldur minnkuðu muninn fimm mínútum eftir síðara mark KR er Stefán Þór Þórðarson skoraði glæsilegt mark úr vítateignum. Eftir markið reyndu Skagamenn að sækja að marki KR en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka tryggði Bjarki Gunnlaugsson KR-ingum bikarinn með sérdeilis glæsilegu marki, lék upp að vörn ÍA og skoraði með hörku skoti í vinstra hornið frá vítateigslínu. KR-ingar fögnuðu gríðarlega leiksloka enda uppskera sumarsins glæsileg, Íslands- og bikarmeistaratitill. Skagamenn voru hins vegar súrir í broti því þetta er fyrsti úrslitaleikur bikarkeppninnar sem þeir tapa eftir að þeir urðu fyrst bikarmeistarar árið 1978. Síðan þá hafa þeir leikið sex sinnum til úrslita og alltaf unnið. Fjórum sinnum hafa KR og ÍA leikið til úrslita og hafa KR-ingar haft sigur í öll skiptin en leikurinn í dag var fyrsti úrslitaleikur liðanna síðan 1964.