Blikastúlkur bikarmeistarar

Sigrún Óttarsdóttir fyrirliði Breiðabliks lyftir bikartitlinum á Laugardalsvelli í dag. …

Sigrún Óttarsdóttir fyrirliði Breiðabliks lyftir bikartitlinum á Laugardalsvelli í dag. Myndin er tekin úr beinni útsendingu Sjónvarpsins og birt með góðfúslegu leyfi RÚV.
mbl.is

Blikastúlkur urðu í dag bikarmeistarar í áttunda sinn þegar þær unnu KR í úrslitaleik á Laugardalsvelli, 1:0. Margrét Ólafsdóttir skoraði sigurmarkið á síðustu mínútu leiksins og er Breiðablik því tvöfaldur meistari en liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir tveimur vikum síðan.

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleiknum og áttu bæði lið í erfiðleikum með að skapa sér marktækifæri. Breiðablik lék undan nokkuð sterkum vindi og þrátt fyrir að leikurinn færi að mestu fram á vallarhelmingi KR var sjaldan hætta á ferðum. Heldur lifnaði yfir leiknum í síðari hálfleik en þá náðu Blikastúlkur nokkrum tökum á honum, þrátt fyrir að leika gegn vindunum. KR fékk hins vegar besta færi leiksins þegar Olga Færseth slapp ein í gegnum vörn Breiðabliks en hún var of sein að athafna sig og á síðustu stundu bjargaði Helga Ósk Hannesdóttir, varnarmaður Blika. Blikastúlkur fengu heldur fleiri færi þó ekki hafi þau verið jafn hættulega og það sem Olga fékk og var það nokkuð í samræmi leiksins þegar Margrét skoraði sigurmarkið. Rakel Ögmundsdóttir sýndi þá skemmtileg tilþrif við vinstra vítateigshornið, lék á varnarmenn KR-inga og náði að senda boltann fyrir á Margréti, sem stödd var við hægra markteigshornið. Sigríður Pálsdóttir, markvörður KR, kom út á móti Margréti sem skallaði boltann í boga yfir Sigríði og inn fór knötturinn. Blikastúlkurnar eru vel að sigrinum komnar og fögnuðu gríðarlega þegar Sigrún Óttarsdóttir, fyrirliði, tók við bikarnum úr hendi Páls Péturssonar og Eggerts Magnússonar. Og að lokum sungu þær dátt "We are the champions" eins og siður er þegar titill er í höfn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert