Skagamenn eru bikarmeistar í knattspyrnu eftir dramatískan sigur á ÍBV á Laugardalsvelli. Kári Steinn Reynisson skoraði sigurmark Skagamanna þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Þetta er áttundi bikarsigur Skagamanna og hafa sömu úrslit orðið í öllum sigurleikjum Skagamanna í bikarúrslitum, 2:1, nema í þeim fyrsta, þegar þeir unnu Valsmenn 1:0 árið 1978.
Skagamenn komu mun ákveðnari til leiks og höfðu frumkvæðið framan af fyrri hálfleik. Eyjamenn komust þó betur inn í leikinn eftir því sem á leið og voru ógnandi í skyndiupphlaupum sínum. Skömmu fyrir leikhlé komu Skagamenn boltanum í mark ÍBV en Eyjólfur Ólafsson, dómari leiksins, dæmdi ekki mark heldur aukaspyrnu á Una Arge fyrir brot á Birki Kristinssyni, markverði ÍBV. Eyjamenn byrjuðu mun betur í síðari hálfleiks og á 48. mínútu átti Momir Mileta hörkuskot í markslá ÍA beint úr aukaspyrnu. Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri og undir lokin var farið að draga nokkuð af leikmönnum. Síðari hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu á miðju vallarins og léku leikmenn beggja liða nokkuð fast. Baldur Aðalsteinsson kom ÍA yfir með góðu skallamarki á 58. mínútu eftir góða fyrirgjöf Pálma Haraldssonar frá vinstri kanti. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Bjarni Geir Viðarsson fyrir ÍBV með hörkuskoti af löngu færi í bláhorn ÍA-marksins. Á lokamínútunum höfðu Skagamenn yfirhöndina og voru mun líklegri til að skora. Allt stefndi þó í framlengingu þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, en þá sendi Haraldur Hinriksson langa sendingu upp í hægra hornið við vítateig ÍBV. Baldur Aðalsteinsson hafði betur í baráttu um boltann við Pál Almarsson og sendi síðan fyrir markið. Kári Steinn Reynisson var rétt staðsettur og skoraði örugglega með góðu skoti úr miðjum vítateignum. Þetta var áttundi bikarsigur Skagamanna og í þriðja sinn sem þeir leggja ÍBV að velli í bikarúrslitum. Sigurður Jónsson, sem var fyrirliði Skagamanna í dag, lék í liði ÍA gegn ÍBV árið 1983, þá sautján ára gamall. Skagamenn unnu þá 2:1 með mörkum þeirra Harðar Jóhannessonar og Sveinbjörns Hákonarssonar, en sonur Harðar, Jóhannes, var í liði ÍA í dag. Árið 1996 sigruðu Skagamann ÍBV aftur í úrslitaleik bikarkeppninnar. Bikarúrslitleiknum á Laugardalsvelli var lýst beint á Íþróttavef mbl.is:Leiknum lokið - Skagamenn eru bikarmeistarar árið 2000! 1:2 á 90. mínútu:
Baldur Aðalsteinsson vann boltann upp við endamörk ÍBV, lék í átt að vítateignum lagði boltann út í teiginn. Þar var Kári Steinn Reynisson og skoraði hann með góðu skoti. Markið kom þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 90. mínúta:
Kári Steinn Reynisson slapp einn innfyrir vörn ÍBV en boltinn féll illa fyrir hann og Birkir kom vörnum við. Gult spjald á 89. mínútu:
Momir Mileta, ÍBV, fékk að líta gula spjaldi fyrir brot á Alexander Högnasyni. 86. mínúta:
Skagamenn tóku hornspyrnu að marki ÍBV og Uni Arge skallaði naumlega framhjá. Nokkuð virðast vera farið að draga af leikmönnum og er leikur beggja liða tilviljanakenndari en áður. Skipting á 84. mínútu:
Hjalti Jónsson kom inn á fyrir Pál Guðmundsson í lið ÍBV. Gult spjald á 78. mínútu:
Alexander Högnason, ÍA, fékk að líta gula spjaldið fyrir athugasemdir við dómgæslu Eyjólfs Ólafssonar. 70. mínúta:
Mikill hraði er í leiknum þessa stundina og hafa Eyjamenn heldur undirtökin. Leikurinn fer þó að mestu fram á miðju vallarins og takast leikmenn hart á. 1:1 á 63. mínútu:
Eyjamenn sóttu að marki ÍA og Bjarni Geir Viðarsson skaut að marki af 25 metra færi. Boltinn hafnaði í bláhorninu vinstra megin. 0:1 á 58. mínútu:
Pálmi Haraldsson komst upp að endamörkum vinstra megin og sendi fyrir mark ÍBV. Baldur Aðalsteinsson stökk hæst allra í vítateignum og skallaði boltann í grasið og þaðan fór boltinn í sveig í hægra hornið. 55. mínúta:
Eftir hornspyrnu frá hægri að marki ÍBV voru Skagamenn aðgangsharðir í vítateignum. Gunnlaugur Jónsson skallaði að marki, Birkir varði en hélt ekki boltanum og Alexender var nálægt því að ná til boltans. Birkir náði hins vegar að handsama boltanum áður en af því varð. 48. mínúta:
Skagamenn sluppu með skrekkinn þegar Momir Mileta átti hörkuskot að marki ÍA beint úr aukaspyrnu. Boltinn hafnaði í þverslánni. Eyjamenn koma ákveðnari til síðari hálfleiks. Síðari hálfleikur er hafinn og voru engar breytingar gerðar á liðunum í leikhléi. 45. mínúta:
Skagamenn komust mjög nálægt því að skora eftir fasta aukaspyrnu Sigurðar Jónssonar að marki ÍBV. Baldur Aðalsteinsson og Uni Arge voru nálægt því að ná til knattarins. Mark dæmt af ÍA:
Uni Arge kom boltanum í mark ÍBV eftir hornspyrnu frá vinstri en Eyjólfur Ólafsson dæmdi að Uni hefði brotið á Birki Kristinssyni, markverði ÍBV, innan markteigs. Skipting á 41. mínúu:
Jóhannes Harðarson þurfti að yfirgefa leikvöllinn vegna skurðar sem hann hlaut á höfði nokkrum mínútum áður. Haraldur Hinriksson kom inn á stað Jóhannesar. 37. mínúta:
Aukin harka hefur færst í leikinn. Skagamaðurinn Jóhannes Harðarson og Eyjamaðurinn Steingrímur Jóhannesson þurftu báðir á aðhlynningu að halda utan vallar eftir pústra við andstæðinga. 30. mínúta:
Eyjamenn eru aftur ágengir við mark ÍA. Eftir hornspyrnu frá vinstri kom boltinn aftur fyrir mark ÍA frá hægri og Hlynur Stefánsson skaut naumlega framhjá. Leikurinn er mjög hraður og skemmtilegur þessa stundina. 28. mínúta.
Nú er skammt stórra högga á milli á Laugardalsvelli. Gunnlaugur Jónsson átti hörkuskalla að marki ÍBV eftir aukaspyrnu frá Jóhannesi Harðarsyni. Birkir Kristinsson var hins vegar vel á verði í marki ÍBV og varði vel. 27. mínúta:
Eyjamenn eru ógnandi í upphlaupum sínum og eftir eitt slíkt skallaði Bjarni Geir Viðarsson að marki eftir fyrirgjöf frá Momir Mileta en Ólafur Þór Gunnarsson varði vel í marki ÍA. 25. mínúta:
Skagamenn hafa enn tögl og hagldir í leiknum en Eyjamenn eru ógnandi í skyndisóknum sínum. Á 24. mínútu var Goran Aleksic dæmdur rangstæður eftir stungusendingu inn fyrir vörn ÍA. 21. mín.
Baldur Aðalsteinsson fékk besta færi leiksins til þess fyrir Skagamenn þegar Kári Steinn Reynisson sendi fyrir mark ÍBV frá vinstri. Baldur var hársbreidd frá því að ná til boltans í markteignum. Gult spjald á 17. mínútu:
Eyjamaðurinn Páll Almarsson fékk að líta gula spjaldið fyrir að stöðva sendingu Skagamanna með höndinni. 13. mín.
Skagamenn eru mun beittari en Eyjamenn. Rétt í þessu fékk Baldur Aðalsteinsson upplagt tækifæri til að skora en náði ekki að skalla að marki af stuttu færi. Það sem af er leiknum hefur hann að mestu farið fram á vallarhelmingi ÍBV. Gult spjald á 4. mínútu:
Eyjamaðurinn Páll Guðmundsson fékk að líta gula spjaldið fyrir brot á Grétari Sveinssyni. Leikurinn er hafinn á Laugardalsvelli. Byrjunarlið ÍBV (4-3-3):
1 Birkir Kristinsson - 21 Páll Þorvaldur Almarsson, 7 Hlynur Stefánsson, 5 Kjartan Antonsson, 2 Páll Guðmundsson - 14 Bjarni Geir Viðarsson, 10 Baldur Bragason, 16 Momir Mileta - 8 Ingi Sigurðsson, 11 Steingrímur Jóhannesson, 3 Goran Aleksic.
Varamenn:
12 Kristinn Geir Guðmundsson, 13 Magnús Sigurðsson, 15 Hjalti Jónsson, 18 Jóhann Georg Möller, 30 Tómas Ingi Tómasson. Byrjunarlið ÍA (4-3-3):
12 Ólafur Þór Gunnarsson - 17 Sturlaugur Haraldsson, 23 Sigurður Jónsson, 4 Gunnlaugur Jónsson, 20 Pálmi Haraldsson - 6 Jóhannes Þór Harðarson, 7 Alexander Högnason, 16 Grétar Rafn Steinsson - 21 Baldur Ingimar Aðalsteinsson, 9 Uni Arge, 11 Kári Steinn Reynisson.
Varamenn:
10 Hálfdán Gíslason, 19 Hjörtur Hjartarson, 5 Reynir Leósson, 8 Haraldur V. Hinriksson. 1 Páll Gísli Jónsson. Dómari: Eyjólfur Ólafsson. Aðstoðardómarar: : Einar Guðmundsson og Einar Sigurðsson. Varadómari: Gísli Hlynur Jóhannsson. Eftirlitsmaður KSÍ: Valur Benediktsson.