Sölvi Geir eini nýliðinn í landsliðshópnum

Eiður Smári, Kári Árnason og Arnar Þór Viðarsson fagna marki.
Eiður Smári, Kári Árnason og Arnar Þór Viðarsson fagna marki. mbl.is/ÞÖK

Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson þjálfarar íslenska landsliðsins í knattspyrnu hafa valið hópinn fyrir vináttulandsleikinn gegn Pólverjum í Varsjá 7. október og leikinn gegn Svíum í Stokkhólmi í undankeppni HM 2006 12. október.

Einn nýliði er í hópnum, Sölvi Geir Ottesen Jónsson, sem leikur með Djurgården í Svíþjóð. Eiður Smári Guðjohnsen og Hermann Hreiðarsson verða ekki með í leikjunum tveimur, enda eru þeir í leikbanni gegn Svíum og þar sem leikurinn gegn Pólverjum er liður í undirbúningi liðsins fyrir leikinn í Stokkhólmi fá þeir félagar frí í leiknum í Varsjá. Frá þessu er greint á vef KSÍ.

Liðið er þannig skipað:

Markverðir: Árni Gautur Arason, Vålerenga, Kristján Finnbogason, KR.

Aðrir leikmenn: Brynjar Björn Gunnarsson, Reading FC, Arnar Þór Viðarsson, Lokeren, Tryggvi Guðmundsson, FH, Heiðar Helguson, Fulham, Auðun Helgason, FH, Indriði Sigurðsson, Genk, Gylfi Einarsson, Leeds, Kristján Örn Sigurðsson, Brann, Veigar Páll Gunnarsson, Stabæk, Stefán Gíslason, Lyn, Grétar Rafn Steinsson, AZ Alkmaar, Kári Árnason, Djurgården, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Halmstad, Jóhannes Þór Harðarson, Start, Bjarni Ólafur Eiríksson, Valur, Sölvi Geir Ottesen Jónsson, Djurgården.

Nú þegar hafa selst um 31.000 miðar á leik Svíþjóðar og Íslands, sem fram fer á Råsunda leikvanginum í Stokkhólmi, en Råsunda tekur 37.000 manns í sæti.

Alls eru þrír leikmenn í íslenska hópnum sem leika þar í landi - Sölvi, Kári Árnason, sem einnig leikur með Djurgården, og Gunnar Heiðar Þorvaldsson, sem leikur með Halmstad og er þegar þetta er ritað markahæsti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert