Best fyrir Eið að yfirgefa Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen fær ekki mörg tækifæri hjá Barcelona, að …
Eiður Smári Guðjohnsen fær ekki mörg tækifæri hjá Barcelona, að mati íþróttastjóra félagsins. AP

Txiki Begiristain, íþróttastjóri spænska félagsins Barcelona, sagði við spænska fjölmiðla í morgun að það væri best fyrir íslenska landsliðsfyrirliðann í knattspyrnu, Eið Smára Guðjohnsen, að yfirgefa félagið og reyna fyrir sér annars staðar. Ljóst sé að hann fái ekki mörg tækifæri með liðinu á komandi keppnistímabili.

„Það er í myndinni að selja hann. Ef hann verður um kyrrt hjá okkur, mun hann ekki spila mikið því það eru komnir þrír nýir framherjar í liðið hjá okkur. Það væri ekki góð ákvörðun hjá honum að vera um kyrrt," sagði Begiristain.

Eiður Smári var á síðasta tímabili í samkeppni við Ronaldinho, Samuel Eto'o og Lionel Messi um stöðurnar í sóknarlínu Barcelona. Nú hefur Thierry Henry bæst í hópinn ásamt tveimur efnilegum sóknarmönnum, Giovani dos Santos og Bojan Krkic, sem hafa staðið sig mjög vel í æfingaleikjum liðsins að undanförnu.

Eiður Smári hefur ítrekað verið orðaður við ensk félög, aðallega West Ham en einnig við Newcastle og Manchester City síðustu dagana. Eiður, sem hefur ekkert leikið á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla, hefur ítrekað sagt að hann hafi hug á að vera um kyrrt í röðum Barcelona.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert