Materazzi segist hafa kallað systur Zidanes hóru

Zidane skallar Materazzi.
Zidane skallar Materazzi. Reuters

Ítalski varnarmaðurinn Marco Materazzi, sem er einna þekktastur fyrir að koma Zinedine Zidane, miðjumanni Frakka, útaf með rautt spjald í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins í Þýskalandi í fyrra, er að gefa út bók. Þar kemur fram hvað það var sem hann sagði við Zidane sem reitti hann til reiði með þeim afleiðingum að Frakkinn skallaði í bringu Ítalans sem féll í völlinn og Zidane, sem var að ljúka glæstum landsliðsferli sínum með þessum úrslitaleik, var rekinn af velli.

„Ég veit að ég gerði mistök, en ég er meira en bara þessi sex orð sem ég sagði,“ sagði Materazzi um helgina þegar kynnt var að ný bók eftir hann kæmi út í lok mánaðarins. Orðin sex sem hann vitnar til eru: „Preferisco la puttana di tua sorella“.

Orðin lét hann falla eftir að þeir höfðu verið að kljást á vellinum og Materazzi togað í peysu Zidane. Frakkinn sagði þá við hann að eftir leikinn mætti hann fá peysuna en þá svaraði Materazzi með þessum sex orðum sem á íslensku gætu útlagst: „Ég kýs frekar hóruna hana systur þína.“

Þar með skallaði Zidane þann ítalska og var rekinn af velli. Staðan í leiknum var 1:1 þegar þetta gerðist og Ítalir sigruðu síðan 5:3 í vítaspyrnukeppni.

Materazzi fékk tveggja leikja bann í kjölfar þessa atburðar og hefur beðið Zidane afsökunar á að láta þessi orð falla.

Raymond Domenech, þjálfari Frakka, sagði fyrr í mánuðinum að Materazzi hefði gert rétt með því að ná Zidane útaf vellinum í leiknum. „Ég segi „Bravo“ við hann,“ sagði þjálfarinn.

Fyrirliði franska landsliðsins, Patrick Vieira, er hins vegar ekki eins kátur með þetta allt saman, en hann er félagi Materazzi hjá Inter Mílanó. Hann hefur lítil sem engin samskipti haft við hann síðan 9. júlí, þegar úrslitaleikurinn fór fram.

„Materazzi lék mjög vel á heimsmeistaramótinu,“ sagði Vieira við Gazzetta dello Sport í fyrradag. „En leikmaður er eitt og persónuleiki annað. Materazzi er þannig persóna að annað hvort er hann elskaður eða hataður. Ég get sagt ykkur að ég myndi aldrei setjast við hlið hans til að fá mér að borða,“ sagði Vieira um félaga sinn í Inter.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert