Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu sagði á blaðamannafundi á Marriott hótelinu í Kaupmannahöfn í dag að hann myndi nota leikaðferðina 4-5-1 í fyrsta leik sínum með liðið, gegn Dönum á Parken annað kvöld.
Eftir Guðmund Hilmarsson í Kaupmannahöfn:
gummih@mbl.is
„Eins og ég hef áður sagt mun ég leggja áherslu á varnarleikinn. Ég reikna með því að Danirnir spili 4-3-3 eins og þeir eru vanir og við erum tilbúnir að mæta því," sagði Ólafur sem tilkynnir byrjunarlið sitt í kvöld en íslenska liðið æfir á Parken á leiktíma, klukkan 20.00 að dönskum tíma.
Fram kom að allir 20 leikmennirnir í íslenska hópnum eru heilir heilsu og tilbúnir í slaginn, þar á meðal Eggert Gunnþór Jónsson sem meiddist á æfingu hjá Hearts í síðustu viku. Íslenska liðið hefur dvalið við í Kaupmannahöfn síðan á laugardag.