Forráðamenn þýska knattspyrnuliðsins Bayern München tilkynntu í dag að Jürgen Klinsmann taki við þjálfun liðsins á næstu leiktíð. Klinsmann stýrði þýska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi árið 2006 en hann mun taka formlega við starfinu hjá Bayern München 1. júlí.
Ottmar Hitzfeld sem er þjálfari liðsins í dag hefur gefið það út að hann hafi ekki áhuga á því að halda áfram sem þjálfari. Vetrarfrí er í þýsku deildakeppninni en keppni hefst að nýju í byrjun febrúar.
Klinsmann lék með Bayern München á árunum 1995-1997 og skoraði hann 31 mark í 65 leikjum. Hann hefur aldrei áður þjálfað félagslið en landsliðsþjálfarastarf hans hjá þýska knattspyrnusambandinu var fyrsta þjálfarastarfið sem hann tók að sér.