Hólmar: Pabbi er betri en ég hélt

Hólmar Örn átti góðan leik í hjarta íslensku varnarinnar í …
Hólmar Örn átti góðan leik í hjarta íslensku varnarinnar í dag. mbl.is/Kristinn

„Þetta er spilamennska til að byggja á en það eru úrslitin sem gilda. Það skilar litlu að spila vel og tapa, þá vill maður nú frekar spila illa og vinna,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson miðvörður íslenska U21-landsliðsins í knattspyrnu sem tapaði 2:0 gegn Tékkum í dag í sínum fyrsta leik í undankeppni EM 2011. 

„Ég er mjög sáttur við fyrri hálfleikinn hjá okkur en mér fannst við geta verið þéttari varnarlega. Við gáfum á okkur óþarfa færi en hefðum að sama skapi vel getað skorað mörk í þessum leik. Við lögðum upp með að pressa á þá sem heild og ætluðum ekki að pakka neitt í vörn. Það gekk bara ágætlega en það er aldrei gaman að tapa,“ sagði Hólmar sem er leikmaður West Ham í Englandi.

Tékkar skoruðu fyrra markið sitt eftir mistök markvarðarins Óskars Péturssonar en Hólmar vildi ekki gera mikið úr þeim enda átti Óskar annars mjög góðan leik.

„Í svona jöfnum leik þá eru það þessi litlu atriði sem skilja á milli og Óskar er mjög góður markvörður þó hann hafi gert þessi mistök. Hann kemur bara sterkur inn í næsta leik.“

Hólmar Örn er í svolítið sérstakri stöðu hjá landsliðinu því þjálfari þess er faðir hans, Eyjólfur Sverrisson. Strákurinn kann því ágætlega.

„Þetta er mjög fínt bara. Það er aðeins annað andrúmsloft á milli okkar á æfingum og svona en maður er vanur en mér finnst þetta bara þægilegt. Það er reyndar skrýtið að kalla þjálfarann pabba á æfingum og maður reynir að sleppa því en hann er betri en ég hélt,“ sagði Hólmar léttur og viðurkenndi að liðsfélögunum hætti til að skjóta á hann af þessum sökum.

„Það eru alltaf einhver vinaleg skot í gangi og bara gaman að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert