Ísland mætir San Marino á Laugardalsvellinum klukkan 19 í kvöld en leikurinn er liður í undankeppni Evrópumóts U21 árs landsliða í knattspyrnu. Hávaðarok er í Reykjavík og nágrenni en allt bendir til þess að leikurinn fari fram.
Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ er ekkert annað inni í myndinni en leikurin fari fram. „Þetta verður rokleikur af gamla skólanum en við eigum ekki von á öðru en að það verði spilað," sagði Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi KSÍ við mbl.is.
Ekki kemur til greina að færa leikinn inn og spila í Kórnum í Kópavogi en þar hafa tveir vináttulandsleikir farið fram á þessu ári. Að sögn Ómars er Kórinn ekki með vottun sem til þarf til að þar geti farið fram alþjóðlegir mótsleikir.