Norska úrvalsdeildarliðið Lilleström vill kaupa Stefán Loga Magnússon markvörð KR-inga en Stefán var lánaður til norska liðsins í ágúst og hefur staðið sig feikilega vel með liðinu. KR fékk í staðinn Andre Hansen sem KR-ingar vilja halda í sínum röðum og vill sá norski gjarnan vera áfram í vesturbænumm.
Rúnar Kristinsson yfirmaður knattspyrnumála hjá KR var að Keflavíkurflugvelli þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær en þar var hann að taka móti kollega sínum hjá Lilleström, Torgeiri Bjarman.
Sá norski er hingað kominn til að funda með Rúnari um markvarðarmálin og eins var hann að skoða leikmenn í U21 árs leik Íslands gegn N-Írum í gær sem og í leik A-landsliðsins á móti Suður-Afríkumönnum.
„Við Torgeir munum spjalla saman í vikunni. Lilleström vill semja við okkur um kaup á Stefáni Loga og við viljum finna einhvern flöt á því hvort það sé möguleiki fyrir okkur að halda André Hansen. André hefur áhuga á að vera áfram með okkur. Hann er ekki spenntur fyrir því að vera varamarkvörður hjá Lilleström svo þetta er svolítið púsluspil sem við þurfum að leysa,“ sagði Rúnar við Morgunblaðið.