Garðar Jóhannsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í dag frá samkomulagi við þýska 2. deildarfélagið Hansa Rostock. Hann fer til Þýskalands í fyrramálið og gengst undir læknisskoðun áður en skrifað verður formlega undir samninginn.
Garðar, sem er 29 ára gamall sóknarmaður, staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu og kvaðst spenntur fyrir því að ganga til liðs við þýska félagið. Það er í 13. sæti 2. deildar, næstefstu deildarinnar. „En það eru bara sex stig í umspilssæti og 17 leikir eftir, þannig að félagið ætlar sér upp í efstu deild og ekkert annað," sagði Garðar.
Hansa mætir 1860 München í 2. deildinni á föstudagskvöldið og Garðar sagði að stefnt væri að því að hann yrði orðinn löglegur með liðinu fyrir þann leik.
Garðar hefur leikið með Fredrikstad í norsku úrvalsdeildinni undanfarin þrjú ár en spilaði áður með Val, KR og Stjörnunni. Hann hefur leikið 6 landsleiki fyrir Íslands hönd, þar af 5 á síðasta ári, og skoraði þá bæði gegn Georgíu og Lúxemborg.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag fer landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson, leikmaður Elfsborg, að öllu óbreyttu í læknisskoðun hjá Hansa Rostock á morgun eða fimmtudaginn. Hansa hefur samið við Elfsborg í Svíþjóð um kaup á honum fyrir 4 milljónir sænskra króna.