Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu og leikmaður IFK Gautaborg, er undir smásjá þriggja eða fjögurra liða í ítölsku A-deildinni, samkvæmt því sem ítalski netmiðillinn Calciomercato.com hefur eftir umboðsmanninum Roberto De Fanti.
Sá er sagður fara með umboð Ragnars gagnvart liðum á Ítalíu. De Fanti neitar spurningu um hvort Napoli sé eitt þessara félaga en segir hinsvegar að hann myndi nýtast því liði vel.
Aftonbladet í Svíþjóð sagði í gær að Gautaborg væri búið að lækka verðið á Ragnari úr 20 milljónum sænskra króna í 10 milljónir, þar sem hann eigi aðeins ár eftir af samningi sínum við félagið. „Ragnar sagði strax í sumar að hann vildi spila í öðru landi og taka næsta skref á ferlinum. Það er betra að fá eitthvað fyrir leikmanninn með því að selja hann nú, í staðinn fyrir að missa hann síðar án greiðslu,“ segir Kent Olsson, forráðamaður IFK Gautaborg, við Aftonbladet. vs@mbl.is