Jóhann Ólafur Sigurðsson markvörður Selfyssinga varði fjórar spyrnur Skagamanna í vítaspyrnukeppni í kvöld en Selfoss lagði þá ÍA að velli í 2. umferð bikarkeppninnar í knattspyrnu á Selfossvelli. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma og líka eftir framlengingu.
Skagamenn voru manni færri meirihluta leiksins því Stefán Þór Þórðarson fékk rauða spjaldið eftir hálftíma leik og verður því í leikbanni í upphafi Íslandsmótsins um næstu helgi.
Gary Martin og Arnar Már Guðjónsson komu Skagamönnum yfir í tvígang á fyrstu 20 mínútum leiksins. Endre Ove Brenne og Arilíus Marteinsson jöfnuðu metin tvívegis fyrir Selfyssinga.
Vítaspyrnukeppnina þurfti að framlengja og úrslitin réðust eftir að hvort lið hafði tekið átta spyrnur. Selfyssingar skutu þrisvar framhjá marki ÍA en Jóhann Ólafur varði fjórar spyrnur Skagamanna.
Selfyssingar eru þar með komnir í 32ja liða úrslitin en þangað komast 20 lið úr neðri deildunum. Liðin 12 í Pepsi-deildinni koma nú til leiks en dregið verður í hádeginu á morgun.
Níu af 12 liðum 1. deildar komust áfram en ÍA, Grótta og Leiknir R. féllu úr keppni í 2. umferð. Fimm lið úr 2. deild komust áfram og fimm úr 3. deild, auk þess sem eitt utandeildalið, Kjalnesingar, er komið í 32ja liða úrslitin.
Önnur úrslit í bikarnum í kvöld:
Þróttur R. - Ármann 5:0
KFR - HK 1:4
KFG - BÍ/Bolungarvík 1:3
Höttur - Fjarðabyggð 5:2
Draupnir - KA 0:3
Björninn - Njarðvík 0:1
ÍR - Víðir 6:0
Grótta - Haukar 0:2
Afturelding - KV 0:1
ÍH - Berserkir 1:2
Úrslit í bikarnum í gær:
Ísbjörninn - Fjölnir 0:10
Víkingur Ó. - Leiknir R. 1:0
Völsungur - Tindastóll/Hvöt 4:3
Dalvík/Reynir - KF 0:1
Elliði - Kjalnesingar 0:1
KFS - Árborg 3:0
Kári - Reynir S. 0:7
Léttir - Hamar 4:1
Leiknir F. - Sindri 3:2