Leikur Sigursteins: Kærleikur milli KR og ÍA

Rúnar Kristinsson þjálfari og fyrrum leikmaður KR er einn þeirra sem taka þátt í verkefni til að styðja við bakið á Sigursteini Gíslasyni, fyrrverandi leikmanni KR og ÍA og núverandi þjálfara Leiknis R. en hann er sem stendur í veikindaleyfi þaðan. Hann glímir við krabbamein og hefur þurft að ganga í gegnum mjög svo erfiða tíma að undanförnu.

Í myndbandsviðtalinu hér að ofan segir Rúnar frá verkefninu sem er í stuttu máli til að styrkja Steina Gísla, eins og hann er best þekktur, og að sýna samstöðu með leik þessara félaga sem Steini lék með á sínum ferli. Leikurinn verður á Akranesvelli, næstkomandi laugardag, og hefst stundvíslega klukkan 17.15.

„Góður félagi okkar allra hjá báðum liðum, KR og ÍA, Sigursteinn Gíslason og fjölskylda hans eiga við veikindi að stríða. Við viljum sína stuðning okkar í verki og setja á leik með leikmönnum sem hann spilaði og starfaði með. Þá viljum við sýna honum samstöðu en knattspyrnan er einmitt góður vettvangur til þess.“

Óli Þórðar og Heimir Guðjóns mætast

Þá segir Rúnar að þó liðin hafi oft eldað grátt silfur saman í mótsleikju sé því ekki þannig farið í samskiptum liðanna og það sé helst Steina Gísla að þakka. „Það hefur alltaf verið kærleikur, vinskapur og samvinna á milli liðanna og ekki síst eftir að Sigursteinn flakkaði á milli liðanna, þá hefur sú samvinna styrkst og aukist.“

Fyrir áhorfendur er ljóst að þarna verður um mikla skemmtun að ræða ef mið er tekið af þeim kempum sem taka þátt. Þá má einnig finna mörg andlit sem enn spila í efstu deild. „Af Akranesi reiknum við með Ólafi Þórðarsyni, Alexander Högnasyni, Ólafi Adolfssyni Steinari Adolfssyni...“ og svona heldur Rúnar áfram. Þá verða Kristján Finnbogason Heimir Guðjónsson, Andri Sigþórsson og fleiri með KR-liðinu.

Ákveðið hefur verið að hafa leikinn tvisvar þrjátíu mínútur þar sem sumir þeirra sem munu spila leikinn eru komnir af léttasta skeiðinu. „Ég treysti mér samt alveg til þess, þeir treysta sér hinsvegar ekki þannig að ég lét undan,“ sagði Rúnar með bros á vör.

Þá vonast hann til að sjá sem flesta á Akranesi til að styrkja gott málefni en leikurinn hefst, eins og áður sagði stundvíslega klukkan 17.15.

„Ótrúlega lunkinn, gríðarlegur karakter sem smitaði svakalega mikið út frá sér, hann var vinnusamur og duglegur. Það er þó ekki bara það, hann var líka mjög góður í fótbolta, las leikinn mjög vel og hann gafst aldrei upp. Þó sú barátta sem hann er að fara í núna sé sú erfiðasta þá trúum við því að hann muni sigrast á henni,“ sagði Rúnar spurður út í það hvernig leikmaður Sigursteinn var. 

Á myndinni má sjá Rúnar Kristinsson í KR-búningnum eftir að …
Á myndinni má sjá Rúnar Kristinsson í KR-búningnum eftir að hann sagði skilið við atvinnumennskuna. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert