Þrenna Viðars kom Selfossi í efstu deild

Selfyssingar tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni.
Selfyssingar tryggðu sér sæti í úrvalsdeildinni. Ernir Eyjólfsson

Þrenna Viðars Kjartanssonar gerði  gæfumuninn þegar Selfoss vann ÍR  3:1 í Breiðholtinu í dag og tryggði  sér þar með aftur sæti í efstu deild næsta sumar, þrátt fyrir að ein umferð sé eftir.  ÍR getur einnig fagnað þrátt fyrir tap því á sama tíma gerðu Grótta og Leiknir R. jafntefli en þar með getur ÍR ekki fallið úr þessu. 

Viðar skoraði úr víti á 21. mínútu og síðan annað mark á 35. mínútu áður en Stefán Þór Pálsson minnkaði muninn fyrir ÍR á 38. mínútu.  Viðar var síðan aftur á ferðinni mínútu fyrir hálfleik þegar hann skoraði aftur úr víti.  Síðari hálfleikur var fjörugur en fátt um mörk, því meira um gul spjöld sem urðu alls tíu, fimm á hvort lið.

 90. mín. 1:3. Leik lokið.

89. mín. 1:3. RAUTT.  Heimir Snær Guðmundsson úr ÍR fékk rautt spjald.  Menn orðnir pirraðir.

70. mín. 1:3. Aftur fékk Viðar opið færi til að bæta við fjórða markinu, nú þegar Einar Ottó Antonsson lagði fyrir hann boltann í gott færi.

70. mín. 1:3. Viðar fékk opið færi til að bæta við fjórða markinu þegar Sævar Þór Gíslason lagði upp fyrir hann frábært færi en Róbert Örn í marki ÍR varði glæsilega.

57. mín. 1:3. Karl Brynjar Björnsson úr ÍR fékk gult.  Fjórir ÍR-ingar komnir með gult og fimm Selfyssingar.  ÍR var að gera sína þriðju skiptingu, allt sett í gang.

57. mín. 1:3. Enn fleiri gul, nú Arilíus Marteinsson úr Selfoss.

51. mín. 1:3. Fleiri gul spjöld, nú Stefán Ragnar Guðlaugsson fyrirliði Selfoss.

46. mín. 1:3. Leikur hafinn á ný. 

45. mín. 1:3. Hálfleikur.  Staða Selfoss vænleg en Haukar hafa 3:2 gegn Þrótti í Laugardalnum.

44. mín. 1:3. MARK! Viðar Örn skorar aftur úr víti. 

41. mín. 1:2. Selfyssingurinn Ivar Skjerne fékk gult spjald fyrir brot.

38. mín. 1:2. MARK! Stefán Þór Pálsson minnkar muninn af harðfylgi, komst í gegnum vörn Selfoss og skoraði framhjá Jóhanni Ólafi markverði. 

35. mín. 0:2. MARK! Aftur Viðar Örn eftir vel útfærða sókn. 

30. mín. 0:1.  Meira fjör komið í leikinn.  Selfyssingar fara varlega, halda boltanum en geysast svo í sókn.  Haukur Ólafsson úr ÍR kominn með gult spjald og Peter Klancar frá Selfossi einnig.

21. mín. 0:1. MARK! Brotið á sóknarmanni Selfoss og dæmt víti sem Viðar Örn Kjartansson skoraði úr í vinstra hornið.

20. mín. 0:0. Selfyssingar farnir að bíta frá sér og sækja meira þó hætta sé alltaf á skyndisóknum ÍR.  ÍR-ingurinn Jóhann Björnsson fékk gult spjald.

6. mín. 0:0.  Selfyssingar stóðu af sér hviðuna og Jón Daði Böðvarsson fékk gott færi til skora eftir góðan undirbúning Viðars Kjartanssonar.

4. mín. 0:0. Breiðhyltingar eru öllu aðgangsharðari og hafa fengið nokkur færi, m.a. skaut Jón Gísli Ström framhjá í snöggri sókn og Andri Freyr Björnsson frá Selfossi er kominn með gult spjald.

1. mín. 0:0.  Leikur hafinn og ÍR byrjar með boltann.   Glampandi sól og hiti um 13 stig en svolítil svalur blærinn.

ÍR tekur á móti Selfoss í Breiðholtinu þegar 20. og næstsíðasta umferð 1. deildar karla fer fram. Mikið er í húfi - bæði lið þurfa eitt stig úr tveimur síðustu umferðunum - Selfoss til að komast upp í efstu deild og ÍR til að halda sér í deildinni.

Eitt stig dugar Selfyssingu til að tryggja sér sæti í efstu deild því Haukar, sem koma í humátt eftir þeim, eru sex stigum á eftir þeim og verða að vinna báða sína leiki um leið og Selfoss verður þá að tapa báðum sínum. 

Að vísu er markahlutfall Selfoss 8 mörkum betra en Hauka og sama má segja um ÍR á móti Leiknismönnum en þetta er jú fótbolti og allt mögulegt.

Tveir sterkir Selfyssingar eru fjarri góðu gamni því Joe Tillen og Babacar Sarr taka út síðara leikbann sitt.   Breiðhyltingar segja sitt lið í góðu lagi, einhver meiðsl og slíkt en að það skipti ekki sköpum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert