Lét skynsemina ráða för

María B. Ágústsdóttir ver skot í landsleik.
María B. Ágústsdóttir ver skot í landsleik. mbl.is/Algarvephotopress

Markvörðurinn, María Björg Ágústsdóttir, ákvað í síðustu viku að hætta atvinnumennsku í knattspyrnu og hefur að öllum líkindum lagt markmannshanskana á hilluna. Ákvörðunina tók María í kjölfar höfuðáverka sem hún fékk í leik með Örebro í Svíþjóð en hún var í herbúðum félagsins í eitt keppnistímabil.

Er hún önnur íslenska knattspyrnukonan sem hverfur úr atvinnumennsku í Svíþjóð á síðustu misserum vegna höfuðmeiðsla en Guðrún Sóley Gunnarsdóttir hefur ekki leikið með Djurgården síðan 2009.

Morgunblaðið ræddi við Maríu um þessa ákvörðun. „Ég lít þannig á að ég sé hætt í boltanum þó að maður viti aldrei hvað búi í framtíðinni. Ég hef nú hætt áður og vil ekki að næsta fyrirsögn tengd mér verði aftur: hætti við að hætta,“ sagði María létt og sagðist helst eiga von á því að leika sér eitthvað eins og hún orðaði það. María meiddist snemma á tímabilinu og tilkynnti forráðamönnum Örebro fyrir nokkru að hún yrði ekki áfram hjá félaginu.

„Þetta var aðeins fjórði deildarleikurinn minn fyrir félagið. Sóknarmaðurinn komst inn fyrir vörnina, ég fór út úr markinu, renndi mér á boltann og kom honum í skjól í fanginu. En andstæðingurinn var of seinn í boltann og lenti í staðinn með bæði hnén af fullum þunga á höfðinu á mér eftir því sem Edda Garðarsdóttir hefur sagt mér,“ sagði María þegar hún lýsti atvikinu en hún sagðist ekki hafa áttað sig á afleiðingunum í fyrstu.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Maríu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert