Marta aftur til Svíþjóðar

Þórunn Helga Jónsdóttir og Marta voru samherjar hjá Santos og …
Þórunn Helga Jónsdóttir og Marta voru samherjar hjá Santos og urðu suður-amerískir meistarar með liðinu. mbl.is/Pedro Ernesto

Marta, brasilíska knattspyrnukonan sem hefur verið talin sú besta í heiminum um árabil, er komin til Svíþjóðar á ný en hún var kynnt til sögunnar í dag sem leikmaður úrvalsdeildarliðsins Tyresö. Hún hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

Þar með snýr hún aftur til Svíþjóðar eftir þriggja ára fjarveru en Marta, sem er 26 ára gömul, kom 18 ára til Umeå á sínum tíma og lék þar í fimm ár. Þá skoraði hún 111 mörk í 103 leikjum fyrir liðið í sænsku úrvalsdeildinni.

Sænskir fjölmiðlar telja að Tyresö þurfi að greiða Mörtu í kringum 5-6 milljónir sænskra króna, eða um 100 milljónir íslenskra króna, fyrir samninginn í þessi tvö ár. Forráðamenn Tyresö segja að félagið greiði ekki laun hennar, heldur öflugir styrktaraðilar þess.

Hún sagði á kynningarfundi í dag að hún liti á Svíþjóð sem sitt annað heimaland og fagnaði því að vera komin aftur þangað. Ennfremur sagði hún að Tyresö hefði verið eina félagið sem gat boðið henni uppá að taka frekari framförum. Ekki hefði spillt fyrir að þar væru samherjar sem léku með henni í Umeå. „Peningar eru ekki allt," sagði Marta ennfremur.

Eftir að Marta yfirgaf Umeå haustið 2008 lék hún með bandarísku liðunum Los Angeles Sol, FC Gold Pride og Western New York Flash, og inná milli með Santos í Brasilíu. Bandaríska atvinnudeildin var á dögunum sett í salt í eitt ár og Marta þurfti því að leita annað eins og margir aðrir leikmenn sem þar  voru samningsbundnir.

Hún var kjörin knattspyrnukona ársins í heiminum fimm ár í röð, 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010, en missti titilinn á síðasta ári í hendur Homare Sawa, leikmanns japönsku heimsmeistaranna. Marta hefur skorað 80 mörk í 72 landsleikjum fyrir Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert