Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 1:4, í öðrum leik sínum í Algarve-bikar kvenna í knattspyrnu í bænum Ferreiras á suðurströnd Portúgals í dag og er því án stiga eftir tvo fyrstu leikina.
Þar með er nokkuð ljóst að Ísland spilar ekki um verðlaunasæti á mótinu, nema eitthvað óvænt gerist í leik Kínverja og Þjóðverja sem var að hefjast.
Öll mörkin komu á fyrstu 38 mínútum leiksins. Antonia Göransson skoraði tvö mörk fyrir Svía og þær Lotta Schelin og Jessica Landström sitt markið hvor. Dóra María Lárusdóttir skoraði fyrir Ísland á 21. mínútu og minnkaði þá muninn í 1:2 úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Hólmfríði Magnúsdóttur.
Ísland mætir Kína í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudaginn og síðan verður leikið um sæti á mótinu á miðvikudaginn.
Lið Íslands:
Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Varnarmenn: Rakel Hönnudóttir, Mist Edvardsdóttir (Anna María Baldursdóttir 86.), Katrín Jónsdóttir fyrirliði (Elísa Viðarsdóttir 80.), Thelma Björk Einarsdóttir.
Tengiliðir: Fanndís Friðriksdóttir (Harpa Þorsteinsdóttir 67.), Dóra María Lárusdóttir, Guðný B. Óðinsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 65.), Hallbera Guðný Gísladóttir (Greta Mjöll Samúelsdóttir 60.)
Framherji: Hólmfríður Magnúsdóttir.
Lið Svíþjóðar: 12 Kristin Hammarström - 4 Annica Svensson, 3 Stina Segerström, 13 Emma Berglund, 6 Sara Thunebro - 17 Lisa Dahlkvist, 18 Nilla Fischer fyrirliði - 9 Jessica Landström, 14 Johanna Almgren, 11 Antonia Göransson - 8 Lotta Schelin.
90+3. Ísland á lokaorðið í leiknum. Aukaspyrna frá Hólmfríði Magnúsdóttur en sænski markvörðurinn ver og síðan er flautað til leiksloka.
90+1. SLÁ! Svíar eru aftur nærri því að skora, nú eiga þeir sláarskot uppúr aukaspyrnu. Hana áttu þeir reyndar tæplega að fá því aðstoðardómari var búinn að gefa merki um rangstöðu...
88. STÖNG! Svíar eru hársbreidd frá því að skora fimmta markið - eiga skalla í stöng eftir hornspyrnu. Annars hafa færin ekki verið mörg í seinni hálfleiknum. Íslenska liðið þétti mjög sinn leik og hefur ekki hleypt Svíunum langt.
86. Anna María Baldursdóttir, 17 ára, kemur inná og spilar sinn fyrsta A-landsleik. Hún kemur fyrir Mist Edvardsdóttur.
83. Greta Mjöll Samúelsdóttir með ágætt skot að marki Þjóðverja en yfir.
80. Elísa Viðarsdóttir kemur inná og leikur sinn annan landsleik, í staðinn fyrir Katrínu Jónsdóttur fyrirliða, sem leikur sinn 113. landsleik! Það er Dóra María Lárusdóttir sem tekur við fyrirliðabandinu. Katrín hefur spilað alla 30 leiki Íslands í Algarve-bikarnum frá upphafi.
69. STÖNG! Hólmfríður Magnúsdóttir er nærri því að minnka muninn. Hún fær boltann frá Dóru Maríu Lárusdóttur og á hörkuskot í stöng. Harpa Þorsteinsdóttir fær boltann í kjölfarið en nær ekki að skjóta.
67. Harpa Þorsteinsdóttir kemur inná fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
65. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kemur inná fyrir Söru Björk Gunnarsdóttur og leikur sinn 3. landsleik. Svíarnir hjá Malmö hljóta að kætast, þeir höfðu beðið um að reynt yrði að spara Söru eins og hægt væri á mótinu.
60. Greta Mjöll Samúelsdóttir kemur inná fyrir Hallberu Guðnýju Gísladóttur. Fyrsta skipting Íslands. Seinni hálfleikur hefur verið afar tíðindalítill til þessa.
46. Seinni hálfleikur er hafinn. Ísland á heldur betur á brattann að sækja, 1:4 undir gegn öðru besta liði Evrópu.
45. Á síðu sænska knattspyrnusambandsins segir að íslenska liðið sé sterkara en tölurnar segi til um og sé sérstaklega hættulegt í föstum leikatriðum. Markaskorararnir Lotta Schelin og Antonia Göransson hafa lokið keppni og spila ekki seinni hálfleikinn. Therese Sjögran, leikjahæsta landsliðskona Svía, kemur inná ásamt Madelaine Edlund.
45. HÁLFLEIKUR. Full stór forysta Svía miðað við gang leiksins. Þeir hafa nýtt færin mjög vel, Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur einu sinni varið vel en annars hefur sænska liðið skorað úr sínum færum í leiknum. Íslenska liðið hefur ekki náð að skapa opin færi en sótt af krafti á köflum.
38. MARK - 1:4. Enn versnar í því. Antonia Göransson skorar sitt annað mark og Svíar eru komnir í heldur betur þægilega stöðu. Þrumufleygur af löngu færi.
33. MARK - 1:3. Aukaspyrna á miðjum vallarhelmingi Íslands, boltinn sendur inní vítateiginn þar sem Jessica Landström stekkur hæst allra og skorar með hörkuskalla. Hún spilar sinn 60. landsleik í dag og skorar þarna sitt 19. mark en Landström spilar með Frankfurt í Þýskalandi. Markið kemur beint eftir góðan kafla íslenska liðsins sem hefur gert nokkurn usla í vörn Svía, með Hólmfríði Magnúsdóttur fremsta í flokki.
23. Íslenska liðið hefur heldur betur tekið við sér eftir markið og hefur sótt af krafti að sænska markinu síðustu mínúturnar.
21. MARK - 1:2. Þar kom fyrsta mark Íslands í mótinu. Hólmfríður Magnúsdóttir er felld innan vítateigs og dæmd vítaspyrna sem Dóra María Lárusdóttir skorar úr. Hennar 14. mark í 73 landsleikjum. Þetta gjörbreytir öllu.
12. MARK - 0:2. Ekki lítur það vel út, annað mark Svía er staðreynd. Sænska liðið með góða sókn upp miðjuna. Antonia Göransson, samherji Margrétar Láru hjá Turbine Potsdam skorar sitt annað mark í mótinu en hún gerði sigurmarkið gegn Kínverjum á miðvikudaginn.
2. MARK - 0:1. Sannkölluð óskabyrjun Svía sem ná forystunni strax. Sending innfyrir vörnina og Lotta Schelin, leikmaður Lyon í Frakklandi, lyftir boltanum laglega yfir Guðbjörgu í marki Íslands. Endurtekið efni frá leik þjóðanna í fyrra. Þá skoraði Josefine Öqvist á 2. mínútu en Margrét Lára Viðarsdóttir og Katrín Jónsdóttir svöruðu og tryggðu Íslandi óvæntan sigur! Vonandi fer þetta á sama veg í dag...
1. Leikurinn er hafinn.
13.29 - Leikurinn er að hefjast, um leið og sólin er að brjótast í gegnum skýin á Algarve.
13.17 - Anna María Baldursdóttir, 17 ára varnarmaður úr Stjörnunni og U19 ára landsliðinu, er mætt til Portúgals og er í leikmannahópi A-landsliðsins í fyrsta skipti í dag.
13.10 - Therese Sjögran, sú leikreyndasta í liði Svía, er á varamannabekknum í dag. Hún á 177 landsleiki að baki og er samherji Þóru B. Helgadóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá sænsku meisturunum Malmö.
13.06 - Katrín Ásbjörnsdóttir er ekki leikfær vegna meiðsla og situr í stúkunni en hinar 20 eru í leikmannahópnum. Nokkrar glíma þó við smávægileg meiðsli, eins og Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir, og ólíklegt að þær taki þátt í leiknum.
13.05 - Í Ferreiras er skýjað, nokkur gola og 15 stiga hiti. Skagarok, vildi einn viðmælandi okkar kalla þetta! Ísland leikur í hvítum búningum að þessu sinni en Svíþjóð í dökkbláum.
12.50 - Ísland vann óvæntan sigur á Svíum, 2:1, í Algarve-bikarnum fyrir ári síðan og lagði þar Svía að velli í fyrsta skipti. Svíar unnu Kína, 1:0, í fyrsta leik sínum á miðvikudag á meðan Ísland tapaði 0:1 fyrir Þýskalandi. Svíar eru í 5. sæti á heimslista FIFA, í 2. sæti í Evrópu, en Ísland er í 15. sæti hjá FIFA og í 9. sæti í Evrópu.
12.48 - Þrjár breytingar eru frá leiknum við Þjóðverja í gær. Guðbjörg Gunnarsdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir og Guðný Björg Óðinsdóttir koma í staðinn fyrir Þóru B. Helgadóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur og Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.