Þróttur vann Reykjavíkurslaginn í Víkinni

Erlingur Jack skoraði fyrsta mark leiksins úr víti.
Erlingur Jack skoraði fyrsta mark leiksins úr víti. mbl.is/Árni Sæberg

Erlingur Jack Guðmundsson skoraði eina mark leiksins þegar Þróttur R. vann Víking R., 1:0, í 9. umferð 1. deildar karla í fótbolta í kvöld.

Erlingur skoraði markið úr vítaspyrnu á 15. mínútu en hann brenndi af úr annarri vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum.

Gestirnir úr Laugardalnum voru betri aðilinn í Víkinni í kvöld og innbyrtu sanngjarnan sigur, 1:0.

Með sigrinum eru þeir komnir upp fyrir Víking í sjöunda sætið en bæði lið hafa tíu stig.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Víkingur R. - Þróttur R. 0:1 (Leikskýrsla)
(Erlingur Jack Guðmundsson 15.) 

90.+4 LEIK LOKIÐ MEÐ SIGRI ÞRÓTTAR R., 1:0.

88. Þetta er svona að fjara út fyrir Víkinga. Þróttur er kominn langleiðina með að vinna sinn annan leik í röð í 1. deildinni.

85. Víkingar reyna nú bara að sparka fram og vona það besta. Jón Guðbrandsson er kominn inn á og reynir að vinna skallaeinvígin gegnum sterkum miðvörðum Þróttar sem hafa verið frábærir í allt kvöld. Þróttarar halda áfram að spila boltanum á milli sín og Halldór Hilmisson á fínt skot að marki eftir góðan sprett.

82. Þróttur aftur í dauðafæri. Arnþór Ari kemst í gott skotfæri hægra megin við markið eftir enn eina skyndisókn Þróttar en hamm þrumar boltanum yfir markið. Helgi Sigurðsson er farinn aftur í framlínu Víkinga.

79. Víkingar dæmdir enn eina ferðina rangstæðir þegar Agnar Darri Sverrisson sleppur í gegn. Heimamenn eru orðnir rosalega þreyttir á flaggi aðstoðardómarans nær.

72. Heimamenn hafa átt sínar sóknir í leiknum en gengur afar illa að skapa sér eitthvað á síðasta þriðjungi vallarins. Þá hafa þeir verið dæmdir margoft rangstæðir.

65. Stórsókn þessa stundina hjá Þrótti gegn óskipulagðri vörn Víkinga. Þetta getur bara endað með öðru marki frá gestunum.

63. Andri Gíslason í algjöru dauðafæri einn á móti Magnúsi Þormar eftir frábæra skyndisókn Þróttar en hann skýtur boltanum framhjá.

55. Lítið gerst á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks. Heimamönnum gengur bölvanlega að gefa fleiri en tvær sendingar á milli manna og Þróttarar halda áfram að koma boltanum á Daða Bergsson úti á hægri kantinum. Miðvarðarpar Þróttar, Karl Brynjar og Erlingur Jack, er að spila frábærlega.

48. Þorvaldur Sveinn Sveinsson á fyrstu marktilraun seinni hálfleiksins. Hann fær sendingu frá Hjalta Má inn í teignum en skot hans fer yfir.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn.

45.+2 HÁLFLEIKUR 

44. Glæsileg skyndisókn hjá Þrótti og boltinn berst á endanum til Andra Gíslasonar sem er í dauðafæri á markteig en Magnús Þormar ver glæsilega. Magnús er að halda Víkingum inn í leiknum.

43. Víkingar heimta vítaspyrnu þegar Kristinn Magnússon er felldur í teignum. Heimamenn virðast hafa eitthvað til síns máls og eru brjálaðir út í Þorvald.

42. Hjalti Már Hauksson fær boltann einn og óvaldaður á markteig Þróttara eftir langa aukaspyrnu. Hann er aftur á móti svo einfættur að hann treysti sér ekki í að sparka á markið af meters færi með hægri fæti og gaf því boltann frekar út á Helga Sigurðsson sem negldi í varnarmann og í horn.

38. VÍTIÐ VARIÐ! Magnús Þormar heldur Víkingum á lífi með því að verja spyrnu Erlings sem var í sama horn og áðan.

37. VÍTI! Helgi Sigurðsson brýtur á Arnþóri Ara og Þorvaldur bendir aftur á punktinn.

36. Víkingar fá nokkrar hornspyrnur og aukaspyrnur í kringum teig Þróttara en Karl Brynjar og Erlingur Jack skalla þetta allt burt ef Ögmundur grípur ekki boltann fyrstur.

27. Þróttarar hafa verið betri aðilinn hingað til. Daði Bergsson er að skapa allskonar vandamál fyrir vörn Víkinga úti á hægri kantinum. Heimamenn hafa þó náð nokkrum skotum á mark en ekkert sem Ögmundur ræður ekki við.

22. Viktor Jónsson kemur inn á í stað Tómasar. Viktor fer upp á topp og takið eftir þessu: Helgi Sigurðsson fer í miðvörðinn!

19. Helgi Pétur Magnússon, hægri bakvörður Þróttar, fellur í teignum en fær ekki víti. Hann fær aftur á móti gult spjald frá Þorvaldi dómara fyrir dýfu.

18. Tómas Guðmundsson er borinn af velli eftir átök í teignum. Virðist vera eitthvað í hnénu. Víkingar undirbúa skiptingu.

15. MARK! Staðan er 0:1. Þróttur er kominn yfir í Víkinni. Erlingur Jack Guðundsson fer á punktinn og skorar en Magnús var ekki langt frá því að verja. Erlingur var hvergi banginn þrátt fyrir að hafa skotið framhjá úr víti í síðasta leik.

15. VÍTI! Halldór Smári Sigurðsson brýtur á Daða Bergssyni innan teigs og Þorvaldur dæmir víti.

8. Dauðafæri hinum megin. Ewan Schwartz með góða fyrirgjöf inn á markteiginn þar Helgi Sigurðsson er mættur en skot hans fer rétt framhjá.

6. Þróttarar í algjöru dauðafæri eftir mistök Tómasar Guðmundssonar í vörninni. Oddur gefur boltann á Daða Bergsson sem er einn á móti markverði en fyrsta snertingin klikkar og Víkingar koma boltanum í horn.

2. Þróttarar eru sprækir og bjóða upp á tvo „klobba“ á Víkingana í sinni fyrstu sókn. Hún endar með hornspyrnu sem ekkert verður úr.

1. Leikurinn er hafinn. Víkingar sækja í átt að Kópavoginum en Þróttur í átt að félagsheimili Víkings.

0. Liðin eru að ganga inn á völlinn. 

0. Það er rosalega sérstakt hversu sjaldan þessi tvö Reykjavíkurlið hafa mæst í deildakeppni á síðustu árum. Meira og minna alltaf þegar Víkingur hefur verið í efstu deild hafa Þróttarar verið niðri og öfugt. Liðin mættust í 1. deildinni 2010 en þá höfðu þau ekki mæst í deildakeppni í átta ár eða síðan 2002. Undanfarin ár hafa Víkingur og Þróttur aðeins þrisvar sinnum verið saman í deild og mæst því sex sinnum. Þróttarar hafa unnið þrjá af þeim leikjum, Víkingar tvo og einu sinni skildu liðin jöfn.

0. Hjálmar Þórarinsson er mættur á völlinn til að styðja sína menn í Þrótti. Með honum í för er Haraldur Árni Hróðmarsson, framherji BÍ/Bolungarvíkingur, en hann er einnig uppalinn Þróttari.

0. Hópur fólks úr almenningsíþróttadeild Víkings var hér hoppandi og skoppandi þegar mbl.is mætti í Víkina. Það var nú ekki ómerkari maður en sjálfur Jón Arnar Magnússon, fyrrverandi íþróttamaður ársins, sem var að stýra hópnum. 

0. Þessi fyrsta deild er alveg ótrúlega jöfn og skemmtileg. Þróttur vann ekki leik fyrr en í síðustu umferð en samt geta þeir komist upp fyrir Víking í sjöunda sætið með sigri hér í kvöld. Það er stutt á milli í þessu eins og á að vera.

0. Víkingar eru án miðvarðarins Egils Atlasonar og sóknarmannsins Hjartar Júlíusar Hjartarsonar eins og kom fram hér að framan. Egill snéri sig illa þegar hann steig á boltann í leiknum gegn Þór í síðustu umferð og Hjörtur tognaði á læri í sama leik.

0. Dómari leiksins er Þorvaldur Árnason en honum til aðstoðar eru þeir Gunnar Sverrir Gunnarsson og Eðvarð Eðvarsson.

0. Liðin eru byrjuð að hita upp hér í Víkinni. Það er þungskýjað, smá gola og fimm gráðu hiti. Fínar aðstæður til þess að spila fótbolta.

0. Páll Einarsson, þjálfari Þróttar, er greinilega ánæður með liðið sem vann fyrsta sigur Þróttar í síðustu umferð en hann gerir engar breytingar á því liði.

0. Víkingar gera þrjár breytingar á sínu liði frá sigurleiknum gegn Þór. Egill Atlason og Hjörtur Júlíus Hjartarson eru meiddir og þá er hinn ungi Agnar Darri Sverrisson settur á bekkinn. Í þeirra stað koma þeir Sigurður Egill Lárusson, Kristinn Jens Bjartmarsson og gamla kempan Helgi Sigurðsson.

0. Byrjunarliðin eru klár í Víkinni en þau má lesa hér að neðan.

Lið Víkings: Magnús Þormar; Kristinn Jens Bjartmarsson, Tómas Guðmundsson, Halldór Smári Sigurðsson, Hjalti Már Hauksson; Evan Scwartz, Kristinn Jóhannes Magnússon, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Sigurður Egill Lárusson; Aron Elís Þrándarson, Helgi Sigurðsson.

Lið Þróttar: Ögmundur Ólafsson; Helgi Pétur Magnússon, Karl Brynjar Björnsson, Erlingur Jack Guðmundsson, Hlynur Hauksson; Hallur Hallsson, Halldór Arnar Hilmisson, Daði Bergsson, Oddur Björnsson, Arnþór Ari Atlason; Andri Gíslason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert