Valtað yfir U21 árs liðið í Belgíu

Eyjólfur Sverrisson og hans strákar riðu ekki feistum hesti frá …
Eyjólfur Sverrisson og hans strákar riðu ekki feistum hesti frá þessari undankeppni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U21 árs landsliðið í fótbolta steinlá gegn Belgíu, 5:0, í lokaleik liðanna í undankeppni EM 2013 en íslenska liðið endar langneðst í riðlinum með aðeins þrjú stig.

Igor Vetokele kom Belgíu yfir, 1:0, eftir 25 mínútna leik og Wannes Van Tricht bætti við öðru marki á 69. mínútu.

Varamaðurinn Mitshy Batshuayi, sem kom inná fyrir Thorgan Hazard, bróðir Edens Hazard, skoraði þriðja markið á 72. mínútu, tveimur mínútum eftir að hafa komið inná, 3:0.

Vetokele bætti svo við öðru marki sínu á 89. mínútu, 4:0, og Batshuayi skoraði svo sitt annað mark á fjórðu mínútu í uppbótartíma, 5:0.

Emil Atlason, Hólmbert Aron Friðjónsson og Einar Karl Ingvarsson komu inná sem varamenn hjá íslenska liðinu í seinni hálfleik.

Bæði Einari Karli og Emil tókst að næla sér í gult spjald eins og fyrirliðinn Hólmar Örn Eyjólfsson og kantmaðurinn Jón Daði Böðvarsson.

Undankeppninni er því lokið hjá íslenska liðinu sem vann einn leik af átta en það var gegn Belgíu á Vodafone-vellinum í september í fyrra, 2:1. Ísland skoraði fjögur mörk í undankeppninni en fékk á sig 21.

Leikurinn í kvöld var ekki upp á neitt því því hvorugt liðið átti möguleika á að komast í umspil um sæti í lokakeppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert