Ísland tapaði gegn Kýpur, 1:0, í öðrum leik liðanna í undankeppni HM í fótbolta á Kýpur í kvöld en þetta er í fyrsta skipti í sex leikjum þjóðanna sem Ísland tapar. Íslensku strákarnir eru því með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina í riðlinum en liðið vann sigur gegn Noregi, 2:0, síðastliðinn föstudag.
Sigur Kýpur var sanngjarn en heimamenn voru miklu betri aðilinn í leiknum. Þeir héldu boltanum betur, biðu eftir opnunum í íslensku vörninni og fengu nokkur fín skotfæri. Hannes Þór Halldórsson stóð vaktina þó vel í markinu og verður ekki við hann sakast.
Birkir Bjarnason fékk tvö fín færi fyrir Ísland í fyrri hálfleik, bæði eftir undirbúning Gylfa Þórs Sigurðssonar, en fyrra skotið úr teignum fór af varnarmanni og þaðan í horn en hitt varði markvörður Kýpverja vel.
Í seinni hálfleik hélt Kýpur áfram að pressa á íslenska liðið. Íslensku strákarnir náðu ekki upp neinu spili og var því auðvelt fyrir Kýpur að vinna boltann aftur trekk í trekk og halda uppi pressunni. Erfitt að vera í svona eltingarleik í 90 mínútur.
Það var svo á 57. mínútu leiksins sem Kýpverjar skoruðu loksins en það gerði Konstantinos Makridis með góðu skoti eftir fallegan undirbúning Dimitris Christofi. Báðir áttu mjög góðan leik fyrir Kýpur í kvöld.
Leikurinn, sem var hægur frekar leiðinlegur, opnaðist í smástund eftir mark Kýpur. Alfreð Finnbogason, sem kom inná sem varamaður fyrir Emil Hallfreðsson í hálfleik, átti þrumuskot í slánna tveimur mínútum eftir að heimamenn komust yfir. Óheppinn Alfreð að boltinn lá ekki í netinu því fast var skotið og hann alveg frír.
Lagerbäck reyndi hvað hann gat að auka sóknarþungann og setti inná bæði Jóhann Berg Guðmundsson og Ara Frey Skúlason. En Íslandi tókst bara ekki að ná upp neinu spili og sigldu Kýpverjar á endanum sanngjörnum 1:0 sigri í hús. Bæði lið eru því með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina.
Varnarvandræðin halda áfram hjá Íslandi í næstu leikjum því Sölvi Geir Ottesen fékk beint rautt spjald á 86. mínútu fyrir brot á miðjum vellinum. Hann var of seinn í tæklingu og var dómarinn ekki í neinum vafa með að vísa honum rakleiðis af velli. Sölvi var að spila fyrir meiddan Kára Árnason og þá gat Grétar Rafn Steinsson ekki heldur byrjað leikinn vegna meiðsla.
Hannes Þór Halldórsson átti mjög góðan dag í marki Íslands og miðverðirnir, Sölvi og Ragnar, stóðu sig vel undir mikilli pressu. Gylfi Þór átti ágæta spretti með boltann í fyrri hálfleik og Birkir var duglegur og komst í tvö fín færi. Eins og gegn Noregi var ógnin af vængmönnunum nánast engin.
Næsti leikur Íslands er gegn Albaníu ytra 12. október og síðasti heimaleikur ársins verður svo fjórum dögum síðar gegn Sviss á Laugardalsvellinum.
Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl við leikmenn koma inn á mbl.is seinna í kvöld og í blaðinu á morgun.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Hannes Þór Halldórsson. Vörn: Birkir Már Sævarsson, Ragnar Sigurðsson, Sölvi Geir Ottesen, Bjarni Ólafur Eiríksson. Miðja: Rúrik Gíslason, Aron Einar Gunnarsson, Helgi Valur Daníelsson, Emil Hallfreðsson. Sókn: Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Grétar Rafn Steinsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Ari Freyr Skúlason.
Lið Kýpur: Tasos Kissas; Dosa Júnior, Elias Charalambous, Georgos Merkis, Athos Solomou, Dimitris Christofi, Michalis Konstantinou, Constantinos Makridis, Sinisa Dobrasinovic, Vincent Laban, Marios Nikolaou.
Varamenn: Christakis Mastrou, Stelios Parpas, Angelis Charalambous, Stathis Aloneftis, Constantinos Charalambides, Nestor Mytidis, Georgios Vasiliou, Valentinos Sielis, Jason Demetriou, Nektarios Alexandrou, Andreas Avraam.