Josip Simunic, einn reynslumesti leikmaður króatíska landsliðsins í knattspyrnu, gæti átt yfir höfði sér refsingu eftir að hafa látið stuðningsmenn kyrja með sér þekkta kveðju fasistahreyfingar eftir sigurinn á Íslandi í gærkvöld.
Simunic fór til stuðningsmanna og kyrjaði „za dom!“ sem þýðir „fyrir ættjörðina!“. Stuðningsmennirnir svöruðu með orðunum „spremni!“ sem þýða mætti sem „fram í rauðan dauðann“. Þessa kveðju notuðu meðlimir fasistahreyfingarinnar Ustase í seinni heimsstyrjöldinni.
Króatíska knattspyrnusambandið hefur þurft að greiða sinn skerf af sektum vegna söngva á borð við þennan en fáheyrt er að leikmenn taki þátt eða eigi frumkvæðið að slíku.
„Ég er ekki hræddur við refsingu. Menn ættu að lesa söguna betur. Ég gerði ekkert rangt. Ég styð og elska Króatíu, landið okkar, og ef það truflar einhvern þá er það ekki mitt vandamál. Ég hef alltaf viljað gera þetta og hef ekki mikinn tíma til viðbótar. Núna var tækifæri fannst mér og ég er ánægður með að stuðningsmennirnir skyldu taka þátt,“ sagði Simunic.
Zeljko Jovanovic, ráðherra íþrótta- og menningarmála í Króatíu, hefur boðist til að veita Simunic sögukennslu og telur ekki vanþörf á.