ESPN hefur stillt upp úrvalsliði ellefu leikmanna sem ekki munu leika á HM í knattspyrnu í Brasilíu næsta sumar. Lars Lagerbäck, þjálfari Íslands, var valinn til að „stýra“ liðinu sem besti þjálfarinn sem ekki náði á HM.
Í umsögn um Lagerbäck segir að árangur hans með íslenska liðið sé stórmerkilegur. Hann hafi umbreytt einni minnstu fótboltaþjóð heims í klókt og gott lið með Gylfa Þór Sigurðsson og Kolbein Sigþórsson í fararbroddi. Þeirri spurningu er velt upp hvort Lars mæti ekki á EM 2016. Hann á enn eftir að ákveða hvort hann heldur áfram með íslenska landsliðið.
Í úrvalsliðinu eru annars eftirfarandi ellefu leikmenn: Petr Cech (Tékklandi), Branislav Ivanovic (Serbíu), Neven Subotic (Serbíu), Daniel Agger (Danmörku), Daniel Alaba (Austurríki), Marek Hamsik (Slóvakíu), Arda Turan (Tyrklandi), Henrik Mkhitaryan (Armeníu), Robert Lewandowski (Póllandi), Zlatan Ibrahimovic (Svíþjóð), Gareth Bale (Wales).