David Beckham er maðurinn sem á að endurvekja áhuga fyrir fótbolta í Miami. Í gær tilkynnti Beckham á fréttamannafundi að hann væri eigandi nýs knattspyrnuliðs sem bætt yrði við MLS-deildina bandarísku en fyrir tólf árum var þáverandi fulltrúi borgarinnar í deildinni, Miami Fusion, lagt niður vegna erfiðs reksturs og takmarkaðs áhuga fyrir liðinu.
Flórídaskaginn hefur frá þeim tíma ekki átt lið í deildinni. Nú verður breyting þar á, fyrr í vetur var ákveðið að Orlando City tæki sæti í MLS árið 2015 og nú bætist við nýja liðið hans Beckhams. Unnið hefur verið markvisst að stækkun MLS-deildarinnar, sem er skipuð 19 liðum í dag en á að vera komin með 24 lið árið 2020.
David Beckham lék sjálfur í deildinni frá 2007 til 2012 og varð þar meistari tvö síðustu árin með liði sínu, LA Galaxy.
Margir furðuðu sig á þeirri ákvörðun Beckhams að halda vestur um haf, þá 31 árs gamall, en þáverandi landsliðsfyrirliði Englands hefur átt stóran þátt í að vekja meiri athygli á deildinni og efla vöxt og viðgang íþróttarinnar í Bandaríkjunum. Nú er hann fyrsti fyrrverandi leikmaður deildarinnar sem gerist sjálfur liðseigandi.
Forráðamenn deildarinnar hafa ekki áhyggjur af því að heimamenn í Miami og nágrenni muni ekki taka vel við nýju fótboltaliði, ef það er á annað borð öflugt og skipað þekktum leikmönnum, eins og Beckham boðaði að stefnan væri.
Svæðið er fjölmennt og rúmlega 60 þúsund manns hafa mætt á leiki bandaríska landsliðsins þegar það hefur spilað á Flórída. Hann gaf ekkert út á spurningar fréttamanna um hvaða leikmenn hann hygðist fá til liðs við sig en sagði að margir hefðu þegar haft samband og sýnt áhuga á að spila með Miami.
Ekki liggur fyrir hvenær nýja liðið verður tilbúið. Orlando City og New York City, annað nýtt félag, verða tekin inn í deildina á næsta ári. Síðarnefnda félagið er að hluta í eigu Manchester City.
Miami á að vera eitt þriggja liða sem síðan bætast við á næstu fimm árum. Nafn liðsins var heldur ekki tilkynnt í gær en Beckham skýrði frá því að nú yrði hafist handa við að byggja nýjan leikvang. Takmarkið væri að bjóða borgarbúum í Miami upp á lið í heimsklassa og hann væri afar bjartsýnn á að það myndi takast.