Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu lék í dag sinn fyrsta leik með rússneska liðinu Krasnodar þegar það tryggði sér sæti í undanúrslitum rússnesku bikarkeppninnar með því að sigra Tosno, 3:0, á heimavelli.
Krasnodar keypti Ragnar af FC Köbenhavn í vetur en hann hefur ekki komið við sögu í fyrstu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni eftir vetrarfríið. Ragnar var varamaður í dag en kom inná um miðjan síðari hálfleik.
Auk Krasnodar er Luch Vladivostok komið í undanúrslitin en Rostov og Rotor Volgograd eru að spila þessa stundina og CSKA Moskva mætir Terek Grozny í síðasta leik átta liða úrslitanna á morgun.
Um næstu helgi er nágrannaslagur í rússnesku úrvalsdeildinni en Krasnodar mætir þá grönnum sínum í Kuban Krasnodar.