Netmiðillinn goal.com kveðst hafa heimildir fyrir því að Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, muni stytta bann Luis Suárez og hann muni fyrir vikið geta hafið nýtt keppnistímabil með Barcelona á Spáni í lok ágúst.
Suárez var úrskurðaður í bann frá öllum afskiptum af knattspyrnu til loka október og má hvorki æfa né spila með sínu félagi til þess tíma, og ekki heldur mæta á knattspyrnuleiki.
Goal.com hefur eftir heimildamanni í röðum CAS að þar á bæ sé dómurinn talinn alltof þungur og mjög líklegt sé að bannið verði stytt. Ekkert verði þó hreyft við landsleikjabanninu en Suárez má ekki spila næstu níu landsleiki Úrúgvæ eftir að hann beit Ítalann Giorgio Chiellini í leiknum gegn Ítalíu á HM í Brasilíu í síðasta mánuði.
Barcelona keypti Suárez af Liverpool fyrir 75 milljónir punda fyrr í þessum mánuði en vegna keppnisbannsins mátti félagið ekki kynna hann á hefðbundinn hátt fyrir stuðningsmönnum sínum.