Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrrverandi fyrirliði Stjörnunnar, hefur skipt um félag í norsku úrvalsdeildinni en hún er farin frá Arna Björnar til Grand Bodö.
Gunnhildur Yrsa, sem er 25 ára, hefur verið hjá Arna Björnar síðustu tvö ár en sleit krossband í hné í fyrrasumar og var lengi frá keppni í kjölfarið.
Hún ætti að verða góður liðsstyrkur fyrir Grand sem er á botni úrvalsdeildarinnar með aðeins 1 stig úr 11 umferðum, en þó aðeins tveimur stigum á eftir næsta liði. Arna Björnar er í 4. sæti deildarinnar með 21 stig.