Knattspyrnukonan Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir leikur ekki meira með Jitex í sænsku úrvalsdeildinni á þessu keppnistímabili. Hún sleit krossband í hné fyrir skömmu og missir fyrir vikið alveg af seinni umferð deildarinnar.
Soffía gekk til liðs við Jitex fyrir þetta tímabil eftir að hafa spilað með Stjörnunni um árabil og skoraði eitt mark í níu leikjum í fyrri umferð deildarinnar en Jitex situr þar á botninum. Hún lék jafnframt sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd í Algarve-bikarnum snemma á þessu ári og var í landsliðshópi Íslands á EM í Svíþjóð í fyrra.
Soffía segir við netmiðilinn damfotboll.com að nú muni hún einbeita sér að endurhæfingunni og vonist til að verða leikfær á ný eftir sex til átta mánuði.