Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Viking er mjög eftirsóttur að því er umboðsmaður hans, Magnús Agnar Magnússon, greinir frá í norskum fjölmiðlum í dag.
„Nokkur félög hafa séð til hans í leikjum með bæði Viking og landsliðinu. Jón Daði hefur bætt sig mikið sem fótboltamaður á þeim tveimur árum sem hann hefur verið hjá Viking. Eftir tímabilið munum við setjast niður, ræða framtíðina og sjá hvaða valkostir eru í boði. En þetta er ferli sem við viljum ekki ræða um í fjölmiðlum,“ segir Magnús Agnar í viðtali við norska blaðið Aftenbladet.
Aftenbladet hefur heimildir fyrir því að félög í Hollandi og í Belgíu sé áhugasöm um að fá Jón Daða til liðs við sig en líklegt er að útsendarar frá mörgum liðum verði á leikjum Íslands gegn Belgum og Tékkum í næsta mánuði.
Jón Daði, sem er 22 ára gamall, á eitt ár eftir af samningi sínum við Viking. Norska liðið vill gera nýjan samning við Selfyssinginn sem svo sannarlega hefur slegið í gegn með íslenska landsliðinu í undankeppni EM en hann var í byrjunarliðinu í sigurleikjunum þremur gegn Tyrkjum, Lettum og Hollendingum.