Spænski knattspyrnumaðurinn Fernando Torres er á heimleið en í morgun staðfestu spænsku meistararnir Atlético Madrid að gengið hefði verið frá samningi við AC Milan á Ítalíu um að fá Torres lánaðan í hálft annað ár, eða til vorsins 2016.
„Loksins aftur heim. Takk til allra sem gerðu þetta mögulegt. Áfram Atlético," skrifaði Torres á Twitter í morgun.
Torres verður án efa vel tekið hjá Atlético en þar ólst hann upp frá 11 ára aldri og þar til hann var seldur til Liverpool 23 ára gamall árið 2007. Torres skoraði 82 mörk í 214 deildaleikjum með Atlético og á fjórum árum á Anfield skoraði hann 65 mörk í 102 leikjum fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.
Chelsea keypti Torres af Liverpool fyrir 50 milljónir punda í janúar 2011 en þar náði hann sér ekki fyllilega á strik og skoraði aðeins 20 mörk í 110 leikjum í úrvalsdeildinni. Torres var lánaður til AC Milan í ágúst á þessu ári og tilkynnt var nú um jólin að félagið hefði gengið frá kaupum á honum frá Lundúnafélaginu. Á Ítalíu hefur lítið gengið hjá framherjanum og hann hefur aðeins náð að skora eitt mark í tíu leikjum í A-deildinni.
Torres, sem er þrítugur að aldri, hefur skorað 38 mörk í 110 landsleikjum fyrir Spán og tvisvar orðið Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari með þjóð sinni.