Guðmundur hjá Nordsjælland

Guðmundur Þórarinsson
Guðmundur Þórarinsson mbl.is/Kristinn

Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Sarpsborg í Noregi undanfarin tvö ár, er í læknisskoðun hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Nordsjælland, samkvæmt frétt á visir.is, sem segir að félögin hafi komist að samkomulagi um kaupverð.

Guðmundur hefur verið lykilmaður hjá norska liðinu undanfarin tvö ár, eftir að hann kom þangað frá ÍBV, og hefur aðeins misst af einum leik liðsins í úrvalsdeildinni á þeim tíma. Hann lék sinn annan A-landsleik á mánudaginn þegar Ísland mætti Kanada í Orlando, en hann á að baki 32 leiki með yngri landsliðunum, fjórtán þeirra með 21-árs liðinu.

Ólafur H. Kristjánsson þjálfar Nordsjælland en hann er nýbúinn að fá til sín Guðjón Baldvinsson frá Halmstad í Svíþjóð. Í hópi liðsins eru einnig markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson og bakvörðurinn Adam Örn Arnarson, sem báðir eru 19 ára gamlir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert