Hólmar samdi við Rosenborg

Hólmar Örn Eyjólfsson
Hólmar Örn Eyjólfsson Ljósmynd/Kristján Bernburg

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson skrifaði í dag undir nýjan samning við norska félagið Rosenborg til þriggja ára.

„Ég er mjög sáttur  við þetta og hlakka mikið til að byrja nýtt tímabil með liðinu. Hérna í Þrándheimi er allt til alls og þetta er félag sem er mjög "professional" í alla staði. Umgjörðin hérna er algjörlega á pari við stóru félögin í Þýskalandi," sagði Hólmar við mbl.is eftir undirskriftina en Rosenborg er sigursælasta félag Noregs á seinni árum og hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta ári.

„Liðið verður svipað og á síðasta ári. Við misstum einn góðan leikmann til New York City en annars verður mikið til byggt á sömu leikmönnum. Við erum reyndar komnir með nýjan markmann og nýjan kantmann," sagði Hólmar.

Hólmar kom til Rosenborg í Þrándheimi í ágúst 2014 eftir að hafa spilað með Bochum í Þýskalandi undanfarin ár. Þá  gerði hann eins árs samning sem átti að renna út í sumar. 

Hólmar vann sér strax sæti í byrjunarliði Rosenborg, spilaði 10 leiki með liðinu á lokaspretti norsku úrvalsdeildarinnar síðasta haust og skoraði eitt mark. Hann er 24 ára gamall varnarmaður og lék með HK, var síðan í röðum West Ham í þrjú ár og spilaði þá jafnframt sem lánsmaður með enska liðinu Cheltenham og belgíska liðinu Roeselare. Hólmar fór til Bochum árið 2011 og var þar í þrjú tímabil. Hann á að baki tvo A-landsleiki og 27 leiki með 21-árs landsliði Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert