Þess vegna sló ég Robben

Robert Lewandowski, Arjen Robben og Franck Ribéry fagna marki fyrir …
Robert Lewandowski, Arjen Robben og Franck Ribéry fagna marki fyrir Bayern München. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Franck Ribéry upplýsti loksins í dag hvers vegna hann sló liðsfélaga sinn, Arjen Robben, í andlitið í hálfleik í viðureign Bayern München og Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrir þremur árum.

Á síðustu andartökum fyrri hálfleiks fékk Bayern aukaspyrnu og Ribéry var ósáttur þegar Robben blandaði sér í umræður um hver ætti að taka hana. Þegar liðin gengu til búningsherbergja kom til orðaskipta á milli þeirra. Ribéry sló Robben og var síðan sektaður af félaginu um 50 þúsund evrur fyrir tiltækið, ásamt því að vera settur út úr byrjunarliðinu.

Ribéry hefur aldrei viljað ræða þetta atvik fyrr en viðtal við hann birtist í Sport Bild í dag. Þar segir hann: „Jupp Heynckes hafði skipulagt þetta: ef við fengjum aukaspyrnu sem hentaði réttfættum áttum við Toni Kroos að sjá um það, en Arjen átti að taka þær sem hentuðu örvfættum. Það var því okkar Toni að ákveða hvor okkar myndi skjóta. Arjen blandaði sér í málið og sagði: Toni á að skjóta. Ég var í uppnámi," sagði Ribéry þegar hann útskýrði kjaftshöggið.

Hann sagði að þeir Robben væru hinsvegar mestu mátar í dag þrátt fyrir þetta atvik.

„Ég er mjög ánægður með samskipti okkar í dag. Það er synd að við vorum ekki sérlega góðir vinir til að byrja með. En í dag erum við miklir félagar og eigum góðar stundir saman," sagði Ribéry við Sport Bild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert