Þróttari safnar fyrir aðgerð á netinu

Matthew Eliason í leik með Þrótti gegn HK síðasta sumar.
Matthew Eliason í leik með Þrótti gegn HK síðasta sumar. mbl.is/Eggert

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Matthew Eliason, sem lék með Þrótti úr Reykjavík í 1. deildinni á síðasta ári, safnar nú fyrr aðgerð á hné sem hann þarf að gangast undir vegna meiðsla sem hann varð fyrir síðasta sumar þegar hann spilaði með Reykjavíkurliðinu.

Nokkra athygli vakti þegar Eliason gekk til liðs við Þrótt síðasta vetur. Hann var þá hættur að spila og taldi að ferlinum væri lokið þegar fyrrverandi þjálfari hans fékk hann til að spila góðgerðarleik í Chicago þar sem margar stórstjörnur mættu, þar á meðal Lionel Messi, en leikurinn var sýndur beint á ESPN.

Í þeim leik skoraði hann glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu, sem fékk gífurlegt áhorf á Youtube.com, og í framhaldinu var honum boðið til Íslands til að spila með Þrótti.

Eliason skoraði grimmt fyrir Þróttara framan af sumri og varð markahæsti leikmaður þeirra með níu mörk, sjö í 1. deildinni og tvö í bikarnum, en hann lék 20 af 22 leikjum Þróttar í deildinni. Hann meiddist á miðju sumri en fékk ekki rétta greiningu og spilaði út tímabilið þrátt fyrir stöðug eymsli í hnénu.

Eftir að Eliason kom heim til Chicago í vetur kom í ljós að hann væri með illa laskað hné og þyrfti að fara í uppskurð. Þar sem meiðslin áttu sér stað á Íslandi greiða bandarískar tryggingar ekki fyrir aðgerðina og nú safnar hann fyrir henni á vefnum giveforward.com.

Á síðunni má sjá að 1.796 dollarar, tæplega 245 þúsund krónur, hafa safnast. Fram kemur að kostnaður við aðgerðina sé 8.000 dollarar, eða tæplega 1.100 þúsund krónur.

Söfnun fyrir Matt Eliason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert