„Vonandi er stærsta augnablikið eftir“

Indriði Sigurðsson í búningi Viking með fyrirliðabandið um arminn.
Indriði Sigurðsson í búningi Viking með fyrirliðabandið um arminn. Ljósmynd/viking-fk.no

„Við ætluðum alltaf heim, það var bara spurning hvenær,“ sagði Indriði Sigurðsson, leikmaður Viking í Noregi, í samtali við mbl.is í dag. Eins og fram kom fyrr í dag mun Indriði snúa heim eftir yfirstandandi tímabil í Noregi, en hann á að baki rúmlega fimmtán ára feril í atvinnumennsku í Noregi og í Belgíu.

„Það er rétti tíminn núna til að koma heim. Konan er búin að vera úti með mér í öll þessi ár og er nú tilbúin til að koma heim. Svo eigum við stelpu sem er að byrja í fyrsta bekk í haust svo það var bara kominn tími á þetta,“ segir Indriði, en ákvörðunin hefur legið í loftinu lengi þó hún hafi ekki verið gerð opinber fyrr en í dag.

„Ég tók þessa ákvörðun í raun og veru í lok janúar. Félagið ætlaði þá að fara í viðræður um nýjan samning en ég lét þá strax vita af minni ákvörðun,“ sagði Indriði sem hefur verið fyrirliði Viking síðustu ár, en félagið hefur verið í nokkrum ólgusjó á þeim tíma.

„Þetta hefur tekið mikið á. Frammistaðan hefur verið upp og ofan hjá okkur. Félagið er eitt það stærsta i í Noregi en hefur ekki náð að blómstra lengi. Auðvitað er gaman að standa í fremstu víglínu en það tekur líka á.“

Indriði Sigurðsson í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik Íslands …
Indriði Sigurðsson í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik Íslands og Portúgals, en Indriði á 65 landsleiki að baki. mbl.is/Golli

Erfitt að segja nei við KR

Indriði er uppalinn í KR en fór ungur til Lilleström í Noregi. Síðan hefur hann spilað með Genk í Belgíu áður en hann fór aftur til Noregs, þá til Lyn en hefur verið hjá Viking frá árinu 2009. Það lá beinast við að spyrja hvort eitthvað annað félag komi til greina við heimkomuna en KR og loka þannig hringnum.

„Það er erfitt, bæði þar sem þetta er uppeldisfélagið og öll fjölskyldan og tengdafjölskyldan eru KR-ingar. Það væri erfitt að segja nei við þá og mig langar auðvitað mest þangað. Baldur [Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar] er búinn að hringja í mig á hverju ári, hvort ég ætli ekki að fara að koma mér heim,“ sagði Indriði og hló, en ætlar fyrst að einbeita sér að þessum síðustu mánuðum hjá Viking. Skiljanlega.

„Það er ótrúlega þægilegt að hafa tekið þessa ákvörðun á eigin forsendum, ekki af því að samningar náðust ekki eða slíkt. Viking vildi halda mér en þeir höfðu fullan skilning á því að þetta væri komið gott og að við vildum fara heim. Þegar sú ákvörðun var tekin líður manni vel, reynir að njóta síðasta ársins og spila fótbolta,“ sagði Indriði og þrátt fyrir að mikið hafi gengið á hjá félaginu lítur hann sáttur á tíma sinn hjá Viking.

„Eins og ég sagði við þá hér úti, þá sé ég ekki eftir neinu hjá Viking. Ég er búinn að vera hér í sjö ár og mér og fjölskyldunni hefur liðið vel. Það væri ótrúlega gaman að geta kvatt félagið með almennilegu tímabili þar sem félagið nær vonandi sínum markmiðum úrslitalega séð.“

Indriði lætur í sér heyra.
Indriði lætur í sér heyra.

Sló út Dortmund í Evrópukeppni

Nú þegar rúmlega fimmtán ára atvinnumannaferli er senn að ljúka vildi blaðamaður forvitnast hvort Indriði gæti nefnt eitthvað sem hefur staðið upp úr. Eins og gefur að skilja þurfti hann að hugsa sig vel og lengi um, enda úr miklu að velja.

„Fyrstu fjögur árin mín hjá Lilleström voru mjög lærdómsrík og að ná silfrinu með þeim árið 2001, stigi á eftir Rosenborg, var mjög sterkt. Tíminn í Belgíu var mjög fínn og eitt af því sem ég man best eftir er þegar við slógum Dortmund út í Evrópukeppni, það var mjög gaman man ég. Við töpuðum þá 1:0 heima en unnum 2:1 á útivelli,“ sagði Indriði, en það var í hinni sálugu Intertoto-keppni.

„En maður er ekki ennþá hættur svo ég er ekki búinn að fara í gegnum minningarbankann ennþá. Það er ennþá hálft ár eftir svo vonandi á maður bara eftir að upplifa stærsta augnablikið. Það væri gaman að fara frá Viking með bikar eða medalíu um hálsinn og enda þetta þannig,“ sagði Indriði Sigurðsson, fyrirliði Viking, í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert