Tyrkir með tilboð í Hannes

Hannes Þór Halldórsson fagnar sigri á Tékkum fyrr í þessum …
Hannes Þór Halldórsson fagnar sigri á Tékkum fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Golli

Tyrkneskt knattspyrnufélag, sem leikur í efstu deild, hefur gert norska félaginu Sandnes Ulf tilboð í íslenska landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson. Þetta staðfestir íþróttastjóri Sandnes Ulf, Tom Rune Espedal, við netútgáfu Sandnesposten í dag.

Ekki kemur fram hvert félagið er og Sandnesposten segir að samkvæmt sínum heimildum hafi tvö eða þrjú félög sýnt verulegan áhuga á að fá Hannes í sínar raðir. Eitt þeirra, þetta tyrkneska, hafi nú komið með formlegt tilboð í markvörðinn.

„Það passar, við höfum fengið ákveðið tilboð í Hannes. Við viljum helst að hann spili með okkur út tímabilið en við virðum hann og hans metnað fyrir því að spila með stærra félagi. Það mikilvægasta er að standa vörð um hagsmuni félagsins, og þó við höfum fengið tilboð er mikið eftir enn,“ segir Espedal.

Hann staðfesti að tilboðið væri þess efnis að það yrði skoðað, en forgangsatriði væri að tryggja sér markvörð í stað Hannesar, áður en af því yrði að tilboðið yrði samþykkt.

Samningur Hannesar  við Sandnes Ulf rennur út að þessu tímabili loknu. Hann kom til félagsins frá KR í ársbyrjun 2014 en féll með liðinu úr úrvalsdeildinni á síðasta ári. Það er nú í toppslag 1. deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert