Pétur Viðarsson leikmaðurinn sterki í liði FH klárar tímabilið með Hafnarfjarðarliðinu en upphaflega átti leikurinn gegn finnska liðinu SJK í Evrópudeildinni í kvöld að vera hans síðasti leikur á tímabilinu.
„Við spiluðum agað, vorum þéttir og skipulagðir og það færði okkur sigurinn í kvöld. Við gáfum fá færi á okkur. Finnarnir voru sterkari í fyrri hálfleik en mér fannst við hafa góð tök á leiknum í seinni hálfleik og vinna verðskuldað,“ sagði Pétur við mbl.is en stuðningsmenn félagsins geta nú verið ánægðir því Pétur klárar tímabilið.
„Ég var að fá þær fréttir í gær að það frestast um eina önn að ég fari í skólann til Ástralíu þannig að ég klára tímabilið með FH. Ég er mjög sáttur við þessa niðurstöðu,“ sagði Pétur, sem átti fínan leik á miðjunni eð FH-ingum í kvöld.
Spurður út í næstu andstæðinga sem verða Inter Baku frá Aserbaídsjan sagði Pétur;
„Það er ljóst að okkar bíður langt og erfitt ferðlag en það verður gaman fást við þetta verkefni. Ég geri nú ráð fyrir að þetta lið sé sterkara heldur en SJK en við munum gera allt sem við getum til að standa okkur vel og reyna að slá það út.“