Matthías liggur undir feldi

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/ikstart.no

„Ég er með mjög freistandi tilboð í höndunum frá rússneska liðinu Ufa sem ég þarf að gefa svar á næstu dögum. Ég kem heim til Íslands á morgun (í dag) og mun fara yfir málið með fjölskyldunni,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, framherji norska úrvalsdeildarliðsins Start, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld en tveggja vikna hlé er komið í norsku deildinni.

Start og Ufa hafa þegar náð samkomulagi um félagaskiptin en boltinn er hjá Matthíasi, sem hefur átt mjög góðu gengi að fagna með Start.

„Ég þarf að vega kostina og gallana. Þeir eru margir í báðar áttir. Því er ekki að neita að rússneska deildin er mjög spennandi þar sem eru mjög sterk lið og þetta yrði gott skref fjárhagslega fyrir mig og auðvitað ný áskorun þar sem ég er búinn að vera lengi hjá Start. En þetta veltur auðvitað á fjölskyldunni. Ég á hús í Kristiansand og okkur líður vel þar svo það er að mörgu að hyggja í þessum efnum,“ sagði Matthías.

Spurður út í líkurnar á að hann taki tilboði sagði Matthías;

„Ég myndi segja að það séu helmingslíkur eins og staðan er í dag. Næstu dagar munu fara í að fara yfir alla fleti en Rússarnir vilja fá svör frá mér sem allra fyrst. Deildin þar byrjar á fimmtudaginn og þeir þrýsta á að ég taki ákvörðun fyrir þann tíma,“ sagði Matthías.

Matthías er 28 ára gamall Ísfirðingur sem ungur að árum steig sín fyrstu skref með meistaraflokki BÍ áður en hann gekk í raðir FH sem hann lék með frá 2005 til 2011. Frá árinu 2012 hefur hann spilað með Start í Kristiansand.

Matthías og félagar hans voru í eldlínunni á útivelli gegn Tromsö í gær og máttu sætta sig við 2:1 tap.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert