Vonast eftir leyfi fyrir Íslandsleikinn

Kasakar ætla sér að ná í stig gegn Tékklandi, en …
Kasakar ætla sér að ná í stig gegn Tékklandi, en það myndi nýtast Íslandi vel. Ljósmynd/UEFA

Kasakstan gæti fengið góðan liðsstyrk áður en liðið sækir Ísland heim á Laugardalsvöll á sunnudaginn í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu.

Miðjumaðurinn Alexander Merkel, leikmaður Udinese á Ítalíu, hefur tekið þátt í síðustu tveimur æfingum Kasaka í aðdraganda leiksins við Tékkland í kvöld. Hann er hins vegar ekki kominn með leyfi frá FIFA til að spila fyrir Kasakstan, þrátt fyrir að margir mánuðir séu síðan hann ákvað að leika fyrir þjóðina.

Merkel lék fyrir yngri landslið Þýskalands en hann er fæddur í Kasakstan og fluttist til Þýskalands 6 ára gamall. Hann lék kornungur með aðalliði AC Milan, eftir að hafa gengið til liðs við félagið 16 ára gamall, og á einnig að baki leiki með Genoa, Watford í ensku B-deildinni og hann var í láni hjá Grasshoppers í Sviss síðasta vetur.

Kasakar freistuðu þess að fá Merkel löglegan fyrir fyrri leikinn gegn Íslendingum sem fram fór í Astana í mars en það tókst ekki. Merkel var þá kominn til móts við hópinn en fékk ekki keppnisleyfið.

Samkvæmt vef UEFA vonast Juri Krasnozhan, þjálfari Kasakstan, til þess að Merkel verði klár í slaginn gegn Íslandi á sunnudagskvöld. Áður en að því kemur ætla Kasakar sér að taka stig gegn Tékkum, sem kæmi Íslandi afar vel.

„Við erum 200% tilbúnir. Við vitum vel hvaða mistök við höfum gert í fyrri leikjum. Við munum halda skipulagi vel og vera agaðir. Það er algjörlega raunhæft fyrir okkur að taka stig,“ sagði Baurzhan Dzholchijev, kantmaður Kasakstan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert