Eigandi Lokeren vill fá Rúnar

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Ómar

Rúnar Kristinsson, fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu og núverandi þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström, er orðaður við þjálfarastarfið hjá hans gamla félagi, Lokeren í Belgíu, og eigandi þess kveðst ekki draga dul á að hann væri mjög spenntur fyrir því að fá Rúnar til starfa.

Eftir ósigur gegn Mouscron á heimavelli, 1:2, um helgina hefur Lokeren tapaði fjórum af  fyrstu átta leikjunum á þessu tímabili og er í tíunda sæti af sextán liðum. Roger Lambrecht, eigandi Lokeren sem þar ræður öllu, segir í viðtali við Het Nieuwsblad í dag að hann styðji áfram þjálfarann Bob Peeters og vandamálið sé að liðið skori ekki mörk.

En Lambrecht kveðst um leið gera sér fulla grein fyrir því að það geti komið að því að skipta þurfi um þjálfara.

Tveir eru nefndir til sögunnar, hinn þrautreyndi Georges Leekens sem á 30 ára feril að baki, þjálfað m.a. Arnór Guðjohnsen hjá Anderlecht á níunda áratug síðustu aldar og hefur í tvígang þjálfað belgíska landsliðið en var síðast landsliðsþjálfari Túnis, og Rúnar Kristinsson.

„Ég veit ekki hvort Leekens sé rétti maðurinn til að taka við liðinu. Ég viðurkenni hinsvegar að Rúnar Kristinsson er þjálfari sem verður alltaf á mínum óskalista. En hann er samningsbundinn Lilleström sem stendur," sagði Lambrecht við Het Nieuwsblad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert