Benzema sleppt úr haldi lögreglu

Félagarnir, Mathieu Valbuena og Karim Benzema.
Félagarnir, Mathieu Valbuena og Karim Benzema. AFP

Karim Benzema, framherji Real Madrid og franska landsliðsins í knattspyrnu, var handtekinn í gær í tengslum við fjárkúgun á Mathieu Valbuena, samherja hans í franska landsliðinu, en Benzema var sleppt úr haldi í kvöld.

Málið á sér langa forsögu en upphaflega var Djibril Cisse, fyrrum framherji Liverpool og Marseille, grunaður um að hafa hótað Valbuena að hann myndi birta kynlífsmyndband af honum á netið en Cisse átti að hafa átt hugmyndina að þessu ásamt nokkrum öðrum.

Benzema gaf sig fram í gær til lögreglunnar í Versailles og var síðan ákærður í dag en eftir langar yfirheyrslur var honum sleppt úr haldi í dag. Hann æfði með Real Madrid nú seint í kvöld en ljóst er að hann komi til með að æfa með liðinu næstu tvær vikurnar þar sem Didier Deschamps ákvað að velja hann ekki í franska landsliðið.

Real Madrid styður Benzema heilshugar í þessu máli og trúir því að hann verði sýknaður af öllum ákærum.

„Karim Benzema sneri aftur til æfinga í dag eftir að hafa gefið yfirvöldum í Frakkland sönnunargögn úr málinu. Forseti Real Madrid, Florentino Perez, hélt fund með leikmanninum og hefur ákveðið í kjölfarið að styðja leikmanninn alfarið í málaferlunum og trúi því að hann sé saklaus,“ sagði í yfirlýsingu Real Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert