Hjálpa knattspyrnufólki að komast til Bandaríkjanna

Jóna Kristín Hauksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir, hér í leik í …
Jóna Kristín Hauksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir, hér í leik í Pepsideildinni í sumar, vinna hvor í sínu lagi að því að hjálpa knattspyrnufólki að komast á skólastyrk í Bandaríkjunum. mbl.is/Eva Björk

Knattspyrnuparið Jóna Kristín Hauksdóttir og Brynjar Benediktsson hefur sett á fót fyrirtæki sem sérhæfir sig í að aðstoða knattspyrnufólk við að komast á háskólastyrk til Bandaríkjanna.

Fyrirtækið þjónustar bæði stráka og stelpur, en áður hefur verið greint frá svipuðu fyrirtæki þeirra Dagnýjar Brynjarsdóttur og Thelmu Bjarkar Einarsdóttur, sem aðstoðar stelpur við að komast út.

Jóna Kristín og Brynjar léku bæði með Clemson University, sem spilar í sterkustu deild háskólafótboltans, ACC-deildinni.

„Við höfum því mikla reynslu þegar kemur að háskólaboltanum og myndað sterk tengsl við bæði þjálfara og leikmenn í Bandaríkjunum. Við höfum verið í nánu sambandi við þjálfara úti á síðustu misserum og myndað tengsl við tugi af skólum,“ sagði Brynjar við mbl.is.

„Það er fjöldinn allur af ungu knattspyrnufólki á Íslandi sem hyggst nota íþróttina til þess að komast á styrk í Bandaríkjunum og við veitum góða aðstoð við leitina,“ bætti Brynjar við, en fjöldi íslenskra knattspyrnumanna fer ár hvert til Bandaríkjanna á skólastyrk.

Heimasíða fyrirtækis þeirra Brynjars og Jónu er soccerandeducationusa.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka