„Auðvitað vil ég spila fyrir Ísland“

Diego Johannesson, leikmaður Real Oviedo.
Diego Johannesson, leikmaður Real Oviedo. Af netinu

„Stuðningsmenn Oviedo eru ótrúlegir og áhrifin sem þeir hafa. Að sjálfsögðu myndi ég vilja spila fyrir íslenska landsliðið og það er eitthvað sem ég ætla mér að stefna að,“ sagði Diego Jóhannesson Pando, leikmaður Real Oviedo í B-deildinni á Spáni í viðtali við mbl.is en hann hefur fengið góða dóma fyrir frammistöðu sína það sem af er tímabilinu.

Diego er 22 ára gamall hægri bakvörður/kantmaður en hann komst fyrst í fréttirnar á síðasta ári er hann var að leika með Real Oviedo í spænsku C-deildinni. Knattspyrnumiðillinn Fótbolti.net náði þá tali af honum en hann er með bæði spænskan og íslenskan ríkisborgararétt og á því möguleika á að leika með íslenska landsliðinu.

Hann komst í fréttirnar er Oviedo átti að leika gegn Real Sociedad í 32-liða úrslitum spænska bikarsins en Alfreð Finnbogason var þá í liði Sociedad. Það var vissulega fjarlægur möguleiki á að skoða hann fyrir landsliðið þá en nú er sá möguleiki orðinn ansi raunhæfur.

Æfði hjá Atletico Madrid

Diego byrjaði snemma að æfa fótbolta eða 4 ára gamall. Hann spilaði þá með skólaliðinu C.P. Laviada áður en hann fór til Sporting de Gijon þremur árum síðar. Hann eyddi fjórum árum hjá Sporting áður en hann fór til C.D. Llano 2000 þar sem hann spilaði til 17 ára aldurs.

Hann fór á reynslu hjá Atlético Madrid 17 ára gamall en endaði hjá Real Oviedo. Hann hefur leikið fyrir yngri lið Oviedo ásamt því að spila með B-liðinu en var tekinn upp í aðalliðið á síðasta ári.

Diego hefur búið á Spáni alla sína ævi en á íslenskan föður eins og hefur komið fram en hann heitir Jón Már Jóhannesson og er búsettur hér á landi. Diego kemur til með að eyða jólunum á Íslandi þetta árið en hann kemur til landsins í næstu viku - hann talar þó litla íslensku.

„Íslenskan hjá mér er ekki góð en ég get sagt eitt og eitt orð. Ég gæti alveg ímyndað mér að búa einn daginn á Íslandi og reyni ég að fara eins oft og ég get í heimsókn þangað,“ sagði Diego en Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, sagði í viðtali við Morgunblaðið á dögunum að hann ef KSÍ ætti að skoða leikmenn eins og Diego þá þyrftu þeir að vera virkilega góðir ef þeir kunna ekki tungumálið.

Diego er sammála Heimi í þeim efnum en hann segir það mikilvægt að skilja bæði liðsfélaga og þjálfara.

„Ég tala spænsku, litla íslensku og fína ensku. Það skiptir mjög miklu máli að tala saman í fótbolta bæði við leikmenn og þjálfara en ég reyni að læra það eins fljótt og mögulegt er. Mér finnst að ég ætti að læra íslensku sem allra fyrst enda heimsæki ég landið stundum,“ sagði hann ennfremur.

Í kennaraháskólanum samhliða boltanum

Diego er á síðasta ári í kennaraháskólanum í Oviedo en hann er í námi samhliða því að spila með liðinu. 

Óhætt er að segja að liði hans hafi gengið vel að undanförnu en Oviedo vann C-deildina á síðustu leiktíð með miklum yfirburðum. C-deildin er 80 liða deild sem skipt er í fjóra riðla en 20 lið eru í hverjum riðli. Oviedo tók 1. sætið í A-riðli þar sem liðið endaði með 80 stig og fór því beint í undanúrslit umspilsins en þar hafði liðið betur gegn Cadiz til að tryggja sig upp í næst efstu deild.

Oviedo vann þá Gimnastic Tarragona í úrslitarimmunni og deildarsigrinum því fagnað vel og innilega en Diego segir tímabilið ekki hafa komið sér á óvart og að markmiðið hafi alltaf verið að komast upp um deild.

„Fyrst náðum við því langþráða markmiði að komast upp um deild og síðan stuttu síðar unnum við hana. Þetta erfið 80 liða deild en markmiðið var frá upphafi að vinna hana því Oviedo á heima í fyrstu deild.“

Liðinu hefur heldur betur gengið vel í B-deildinni en það situr í 3. sæti deildarinnar með 28 stig þegar mótið er um það bil hálfnað. Diego hefur þar leikið síðustu sjö leiki í byrjunarliðinu en hann segir að þessi árangur komi honum ekkert á óvart.

„B-deildin á Spáni er mjög erfið því liðin eru mjög efni og í svipuðum styrkleika. Það kemur samt ekkert á óvart að við erum í þriðja sætinu því félagið leggur hart að sér að verða betra með hverjum deginum með hjálp Grupo Carso (mexíkóskt fyrirtæki sem keypti Oviedo árið 2012) og þó svo við séum nýliðar þá virða öll lið okkur. Markmiðið fyrir þetta tímabil var að enda eins ofarlega og mögulegt er en það væri auðvitað frábært að komast upp í efstu deild,“ sagði Diego, sem er bjartsýnn á framhaldið.

Fékk tækifærið gegn Ponferradina

Diego hafði verið að spila með B-liði Oviedo fyrir þetta keppnistímabil og var ekki útlit fyrir að hann myndi spila mikið í B-deildinni. Hann er enn ungur og vildi þjálfarinn treysta meira á reynsluboltana í liðinu. Hann fékk þó langþráð tækifæri gegn Ponferradina og síðan þá hefur hann ekki sleppt stöðu sinni í liðinu.

„Ég var ekki í byrjunarliðinu fyrir þetta keppnistímabil. Ég spilaði bara með B-liðinu því ég var svo ungur. Þjálfarinn var með tvo reynslumeiri leikmenn í þessa stöðu og því var mjög erfitt að komast í byrjunarliðið en ég fékk tækifærið í október gegn Ponferradina og síðan þá hef ég spilað alla leiki. Ég var því mjög ánægður með traustið sem þjálfarinn sýndi mér,“ sagði Diego en hann var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína með liðinu í nóvember.

„Ég er núna búinn að byrja síðustu sjö leiki með Oviedo og ég verð bara öruggari og öruggari með hverjum leiknum. Það var því mikill heiður fyrir mig að vera valinn leikmaður mánaðarins í nóvember. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig því ég er búinn að leggja alla þessa vinnu á mig og margir aðrir frábærir leikmenn komu til greina að fá verðlaunin. Ég er því í skýjunum með þetta.“

Dreymir enn um að spila fyrir íslenska landsliðið

Morgunblaðið birti grein á dögunum þar sem stuðningsmenn Oviedo kölluðu eftir því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar Íslands, myndu velja hann í hópinn fyrir Evrópumótið sem fer fram í Frakklandi en hún vakti mikla athygli.

„Stuðningsmenn Oviedo eru ótrúlegir og áhrifin sem þeir hafa. Að sjálfsögðu myndi ég vilja spila fyrir íslenska landsliðið og það er eitthvað sem ég stefni að en nú er ég hins vegar með hugann við að bæta mig og sýna hvað ég get svo ég fái kannski tækifæri á að spila, sem væri auðvitað frábært. Knattspyrnusambandið hefur samt ekkert haft samband við mig,“ sagði Diego.

„Ég sagði á síðasta ári að mig dreymir að spila fyrir íslenska landsliðið og segi það enn. Núna er ég ekki að hugsa um hvort það sé raunhæft eða ekki en það getur verið að það sé raunhæft, ég bara hef ekki hugmynd um það. Ég verð bara að halda áfram að leggja hart að mér og gera hlutina vel til þess að það sé raunhæfur möguleiki.“

Hefur fylgst með íslenska landsliðinu í undankeppninni

Íslenska landsliðið náði mögnuðum áfanga í september er það tryggði sig á sitt fyrsta stórmót en þá var ljóst að liðið myndi spila á EM í Frakklandi á næsta ári. Árangur liðsins fór ekki framhjá Diego en hann fylgdist með liðinu í undankeppninni.

„Ég hef fylgst með íslenska landsliðinu í undankeppninni fyrir EM og ég þekki nokkra í liðinu, þó einna helst Alfreð Finnbogason. Ég spilaði á móti honum á síðasta ári í 32-liða úrslitum spænska bikarsins og fékk þá tækifæri til þess að tala við hann á Anoeta,“ sagði hann að lokum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála hjá Diego en ljóst er að hann gæti komið með ferska vinda í liðið. Hann getur þó ekki leikið með íslenska liðinu í þessum þremur leikjum sem Ísland spilar í janúar en á þó möguleika á að spila í vináttuleikjunum í mars og maí fyrir Evrópumótið ef hann heldur áfram á sömu braut með Oviedo.

Undirritaður lætur myndband af Diego fylgja með fréttinni en þar getur fólk séð hvað hann hefur fram að færa.

Diego Johannesson
Diego Johannesson
Diego Jóhannesson.
Diego Jóhannesson. Heimasíða Real Oviedo
Diego heldur hér á treyju númer 2.
Diego heldur hér á treyju númer 2. Twitter
Diego Jóhannesson er hann var valinn leikmaður mánaðarins í nóvember.
Diego Jóhannesson er hann var valinn leikmaður mánaðarins í nóvember. Heimasíða Real Oviedo
Diego í leik með Real Oviedo á tímabilinu.
Diego í leik með Real Oviedo á tímabilinu. Heimasíða Real Oviedo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert