Blatter og Platini í átta ára bann

Sepp Blatter og Michel Platini.
Sepp Blatter og Michel Platini. AFP

Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, hafa verið settir í átta ára bann frá afskiptum af fótbolta.

Þetta er úrskurður siðanefndar FIFA sem var birtur rétt í þessu. Til skoðunar var greiðsla sem Platini fékk frá FIFA árið 2011 og var skýrð sem þóknun fyrir störf sem hann hafi unnið fyrir sambandið í kringum aldamótin.

Báðir voru þeir settir í tímabundið bann í haust á meðan málið væri rannsakað frekar.

Í yfirlýsingu frá siðanefndinni segir að Platini hafi ekki sýnt af sér trúverðugleika og heiðarleika og sýnt kæruleysi gagnvart sinni mikilvægu stöðu. Útskýringar Blatters á munnlegu samkomulagi um greiðsluna hafi ekki verið sannfærandi og verið hafnað af nefndinni.

Platini var sektaður um 73 þúsund evrur (10,4 milljónir króna) og Blatter um 47 þúsund evrur (rúmar 6,6 milljónir króna).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert