Áfrýjun Blatters staðfest

Sepp Blatter kemur til blaðamannafundar í Zürich sem haldinn var …
Sepp Blatter kemur til blaðamannafundar í Zürich sem haldinn var í gær. AFP

Lögfræðingar Sepps Blatters, forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, gáfu fyrir stundu út yfirlýsingu þar sem staðfest var að hann myndi áfrýja úrskurði siðanefndar FIFA sem í gær dæmdi hann í átta ára bann frá afskiptum frá knattspyrnu.

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, fékk sama úrskurð en málið er tilkomið vegna greiðslu sem Platini fékk frá Blatter fyrir fjórum árum og var sögð vera laun til hans vegna starfa fyrir FIFA á árunum 1998 til 2002. 

Í yfirlýsingunni segir að Blatter muni áfrýja úrskurðinum til áfrýjunardómstóls FIFA. Úrskurðurinn sem birtur var í gær hefði staðfest að hvorki væri um að ræða spillingu né mútur en Blatter væri eftir sem áður ákveðinn í að sýna fram á það fyrir áfrýjunardómstólnum að aðrar ákærur á hendur honum væru heldur ekki á rökum reistar. Þær sýni greinilega að samskipti Blatters við Plataini hafi verið á allan hátt eðlileg. Blatter sé tilbúinn til að fara alla leið fyrir dómstólum til að hrinda þeim ákærðum sem eftir standi og hreinsa nafn sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka