Mæla með níu ára banni

Jeróme Valcke.
Jeróme Valcke. AFP

Siðanefnd FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, hefur lagt til að framkvæmdastjóri sambandsins, Jeróme Valcke, verði settur í níu ára bann frá afskiptum af fótbolta.

Valcke lýkur í dag afplánun á 90 daga banni sem hann fékk fyrr í vetur en nefndin hefur krafist þess að það verði framlengt um 45 daga. Valcke verði í framhaldinu settur í níu ára bann og sektaður um 100 þúsund svissneska franka fyrir að „misnota greiðslur vegna útgjalda og brot á öðrum lögum og reglum FIFA," eins og það er orðað.

Jeróme Valcke er 55 ára gamall Frakki sem hóf störf hjá FIFA árið 2003, á markaðssviði, en hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra sambandsins frá 2007.

Rétt fyrir jól voru Sepp Blatter, forseti FIFA, og Michel Platini, forseti UEFA, báðir úrskurðaðir í átta ára bann frá afskiptum af fótbolta en þeir hafa báðir áfrýjað þeim úrskurði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka