Wuhan Zall kaupir Sölva Geir

Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen þegar þeir fögnuðu …
Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen þegar þeir fögnuðu kínverska bikarnum með Jiangsu í lok síðasta tímabil. Nú eru þeir báðir farnir frá félaginu.

Kínverska knattspyrnufélagið Wuhan Zall tilkynnti fyrir stundu að það hefði keypt íslenska landsliðsmiðvörðinn Sölva Geir Ottesen af Jiangsu Suning.

Þetta kemur fram á vefsíðunni Transfermarkt.com en þar er sagt að Wuhan Zall greiði 650 þúsund evrur, rúmar 90 milljónir króna, fyrir Sölva.

Þar með fer hann niður um deild, eftir að hafa spilað með Jiangsu í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og orðið bikarmeistari með því. Wuhan Zall leikur í B-deildinni og hafnaði þar í 9. sæti af 16 liðum á síðasta tímabili.

Wuhan Zall kemur frá stórborginni Wuhan en íbúar þar eru rúmar 10 milljónir. Félagið er sjö ára gamalt og á að baki eitt tímabil í úrvalsdeildinni en þar lék liðið árið 2013 en varð neðst og féll. Heimavöllur  félagsins rúmar 32 þúsund áhorfendur en að meðaltali mættu 5.300 manns á heimaleiki Wuhan Zall á síðasta tímabili. Keppni í deildinni hefst um miðjan mars.

Sölvi er 31 árs gamall og Wuhan Zall er hans sjötta félag síðan hann fór frá Víkingi í Reykjavík árið 2004. Hann lék með Djurgården í Svíþjóð, SönderjyskE og FC Köbenhavn í Danmörku, Ural í Rússlandi og síðast með Jiangsu í Kína.

Hann er þá einn eftir af þremur Íslendingum sem léku í Kína á síðasta ári. Samherji hans Viðar Örn Kjartansson gekk til liðs við Malmö og Eiður Smári Guðjohnsen, sem lék með Shijiazhuang Ever Bright, er án liðs sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert